Brasilíski sóknarmaðurinn Neymar er við það að framlengja samning sinn við franska félagið Paris Saint-Germain en föruneyti hans staðfestir þetta við France Football í dag.
Neymar mun skrifa undir samning við félagið til ársins 2026 og þá fær hann veglegan bónus eftir liðið vinnur Meistaradeild Evrópu.
Núverandi samningur hans við félagið rennur út næsta sumar en hann hefur verið orðaður við Barcelona síðustu vikur.
Samningaviðræður Neymars við PSG hafa verið í gangi í nokkra mánuði en það er orðið ljóst að hann mun framlengja við félagið og staðfestir föruneyti hans fréttirnar í viðtali við France Football.
„Neymar vill vera áfram hjá PSG. Hann sér að klúbburinn er að vaxa og hann er afar hrifinn af verkefninu," kemur fram í tilkynningu hjá teyminu hans.
Fabrizio Romano, íþróttafréttamaður hjá Sky Italia, segir að það styttist í tilkynningu frá PSG en félagið er einnig í samningaviðræðum við Kylian Mbappe. Samningur Mbappe rennur einnig út á næsta ári en hann hefur verið orðaður við Real Madrid og Liverpool síðustu mánuði.
Athugasemdir