Real Madrid vill Rodri, Trent og Saliba - Karim Adeyemi orðaður við Man Utd - Newcastle vill Gomes
   mán 12. ágúst 2024 11:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
G Andri: Vonandi stenst ég þessar væntingar núna í KR
'Það spilaði mjög mikið inn í mína ákvörðun að Óskar sé að fara þjálfa liðið'
'Það spilaði mjög mikið inn í mína ákvörðun að Óskar sé að fara þjálfa liðið'
Mynd: KR
'Ég hefði alveg viljað spila betur. Það er bara vonandi að maður standist þessar væntingar núna í KR'
'Ég hefði alveg viljað spila betur. Það er bara vonandi að maður standist þessar væntingar núna í KR'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Mig langaði auðvitað einhvern tímann á ferlinum, sérstaklega eftir að hafa spilað með þeim alla yngri flokkana, að spila með þeim í meistaraflokki líka.'
'Mig langaði auðvitað einhvern tímann á ferlinum, sérstaklega eftir að hafa spilað með þeim alla yngri flokkana, að spila með þeim í meistaraflokki líka.'
Mynd: KR
'Auðvitað spilar inn í að ég var mikið meiddur og var mikið inn og út alltaf'
'Auðvitað spilar inn í að ég var mikið meiddur og var mikið inn og út alltaf'
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
'Það er karakterinn sem hann er sem gerir hann að svona góðum þjálfara'
'Það er karakterinn sem hann er sem gerir hann að svona góðum þjálfara'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég kynntist fullt af mjög góðu fólki og er þakklátur fyrir tímann í Val'
'Ég kynntist fullt af mjög góðu fólki og er þakklátur fyrir tímann í Val'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mættur aftur í hvítu og svörtu röndóttu treyjuna.
Mættur aftur í hvítu og svörtu röndóttu treyjuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er gaman að vera kominn aftur heim," segir Guðmundur Andri Tryggvason, sem keyptur var frá Val yfir í uppeldisfélagið KR fyrir helgi.

Andri, eins og hann er oftast kallaður, spilaði síðast með KR sumarið 2017 og hélt í kjölfarið til Noregs og var á mála hjá Start næstu þrjú árin.

Hann kom heim til Íslands og lék með Víkingi sumarið 2019 og var svo keyptur til Vals vorið 2021.

„Það var ekkert rosalega langur aðdragandi að þessu. Ég hitti Óskar, spjallaði við hann og leist bara mjög vel á þetta."

Ræddi við fimm félög
Samningur Andra við Vals átti að renna út eftir tímabilið og ræddi hann við nokkur félög í sumar um mögulegan samning eftir að tímabilinu lyki.

Varstu búinn að láta Val vita að þú værir að fara í KR eftir tímabilið?

„Nei, ég var bara búinn að segja að mig langaði að hugsa mig um eftir tímabilið hvað ég myndi vilja gera. Það var ekkert klárt hvort, hvert eða hvenær ég myndi fara eitthvað."

„Ég ræddi við þónokkur lið í sumar; Víking, FH, Breiðablik, Val auðvitað og KR. Það er geggjað að svona mörg félög hafa áhuga á manni."

„Það heillaði mig mikið sá möguleiki að fara aftur í KR og það spilaði mjög mikið inn í mína ákvörðun að Óskar sé að fara þjálfa liðið. Ég átti gott spjall við hann. Það spilaði líka mikið inn í að félagar mínir eru líka að koma aftur heim. Það er rosa spennandi."


Á eftir að vinna titilinn í meistaraflokki
Ástbjörn Þórðarson, Gyrðir Hrafn Guðbrandsson og Hjalti Sigurðsson eru búnir að skrifa undir í Vesturbænum og fleiri úr 1999-2000 árganginum orðaðir við félagið.

„Auðvitað spilar það inn í. Mig langaði auðvitað einhvern tímann á ferlinum, sérstaklega eftir að hafa spilað með þeim alla yngri flokkana, að spila með þeim í meistaraflokki líka."

„Tilfinningin að vera kominn heim í uppeldisfélagið er mjög góð. Þegar ég labbaði inn á mína fyrstu æfingu þá leið mér eins og ég hefði aldrei farið. Það var tekið mjög vel á móti manni, engin stresstilfinning, bara gaman að vera kominn aftur heim. Mér leið eins og ég væri á leið á mína hundruðustu æfingu."


Eftir fyrri veru hjá KR, finnst þér eins og þú eigir eitthvað ógert hjá félaginu?

„Ég á náttúrulega eftir að vinna Íslandsmótið með meistaraflokki. Ég er búinn að vinna það með öllum yngri flokkum í KR og væri gaman að bæta titlinum í meistaraflokki með í safnið."

Hefði viljað spila betur
Andri var í tæplega þrjú og hálft ár hjá Val. Hann lék 17 deildarleiki 2021, 20 leiki 2022, 19 leiki 2023 og 11 leiki í ár.

„Þetta var mjög góður tími. Ég kynntist fullt af mjög góðu fólki og er þakklátur fyrir tímann í Val."

Talsverðar væntingar voru gerðar til Andra hjá Val og horft í þá góðu hluti sem hann gerði með Víkingi sumarið 2019. Andri var spurður út í þá fullyrðingu að hann hefði ekki staðist væntingar Valsara og þær væntingar sem hinn almenni fótboltaáhugamaður gerði til hans.

Hvernig sérð þú þetta?

„Mér finnst bara gaman að það sé sett pressa á mann. Það þýðir að maður getur eitthvað í fótbolta. Auðvitað spilar inn í að ég var mikið meiddur og var mikið inn og út alltaf. Ég náði kannski aldrei að toppa mig nógu vel."

Andri er sóknarmaður. Hann skoraði þrjú deildarmörk á sínu fyrsta tímabili, fjögur 2022, tvö í fyrra og náði ekki að skora á þessu tímabili með Val.

„Frammistaða mín var svolítið kaflaskipt. Mögulega var besta tímabilið mitt núna í ár. Svo auðvitað meiðist maður, eins og hin tímabilin líka svo sem. Núna í ár spilaði ég mikið á miðjunni og leið mjög vel með það."

„Ég hefði alveg viljað spila betur. Það er bara vonandi að maður standist þessar væntingar núna í KR,"
sagði Andri nokkuð léttur.

Verðmiðinn á Andra þegar hann kom til Vals var á milli tannanna á fólki. Andri er talinn hafa kostað 10-11 milljónir króna sem er há upphæð fyrir íslenskt félag að greiða fyrir leikmann.

Fannst þér það eitthvað trufla þig, að það væru einhverjar kröfur út af háu verði?

„Kannski smá, það var hár verðmiði á manni sem þýddi að maður þurfti að standast kröfur. Ég kannski pældi aðeins í því."

Frá næstu tvær vikurnar
Andri er sem stendur meiddur en vonast til að geta spilað aftur eftir tvær vikur.

„Ég er með tognað liðband aftan í hnénu og er tognaður aftan í læri. Ég vonast til að vera klár eftir svona tvær vikur."

„Síðustu ár hafa þetta í raun alltaf verið ný og ný meiðsli, mikið náravesen, snúinn ökkli, tognun aftan í læri - bland í poka."


Karakterin sem gerir hann svona góðan þjálfara
Andri kemur til KR og getur þar leyst margar stöður fram á við.
„Ég spila þar sem fyrst Pálmi og svo Óskar vill að ég spili. Sama hvort það verður á kanti, framarlega á miðjunni eða fremst á vellinum, ég er klár í allt."

Óskar er yfirmaður fótboltamála hjá KR og aðstoðarþjálfari meistaraflokks. Hann mun taka við sem aðalþjálfari eftir tímabilið. Á sínum tíma þjálfaði hann Andra í yngri flokkum KR.

„Hann hefur þjálfað meistaraflokk síðustu ár og þar er öðruvísi leikskipulag heldur en í yngri flokkum, þó það sé svipað. Það er karakterinn sem hann er sem gerir hann að svona góðum þjálfara."

KR er í brekku eins og er, liðið er í fallbaráttu. Andri hefur trú á því að liðið nái að koma sér úr þeirri stöðu.

„Já, það er allavega markmiðið. Vonandi getum við klárað tímabilið með stæl og svo byrjað nýtt tímabil vel," segir Andri.

KR á leik gegn FH á heimavelli í kvöld. KR er í 9. sæti deildarinnar, stigi fyrir ofan fallsæti.

Miðað við orð Andra þá gæti hann spilað gegn Víkingi þann 26. ágúst eða þá gegn ÍA þann 1. september.
Athugasemdir
banner
banner
banner