Guðmundur Andri Tryggvason er á mála hjá Start í Noregi. Hann steig sín fyrstu skref með KR í meistaraflokki um miðjan síðasta áratug en var á síðustu leiktíð að láni hjá Reykjavíkur Víkingum.
Hjá Víkingi varð Andri bikarmeistari og vakti athygli fyrir frammistöðu sína innan vallar. Fótbolti.net hafði samband við Andra og spurði hann út í nokkra hluti á ferlinum til þessa.
Hjá Víkingi varð Andri bikarmeistari og vakti athygli fyrir frammistöðu sína innan vallar. Fótbolti.net hafði samband við Andra og spurði hann út í nokkra hluti á ferlinum til þessa.
Valdi fótboltann fram yfir körfuboltann
Var Andri alltaf hjá KR í yngri flokkunum?
„Ég byrjaði reyndar í FH eftir að við fjölskyldan fluttum heim. En svo fluttum við í Vesturbæinn og þá var það bara KR sem kom til greina. Ég var mjög heppinn með liðsfélaga þar bæði í körfunni og fótboltanum og það hefur fleytt mér langt," sagði Andri við Fótbolta.net.
Andri nefnir körfuna og liðsfélagana. Í hversu góðu liði var Andri hjá KR í körfubolta og hversu góður var hann sjálfur?
„Ég var mjög góður, þó ég segi sjálfur frá. Ég var tvö ár í röð valinn besti leikmaðurinn. Liðið sem heild var líka mjög gott. Hópurinn var það góður að við þurftum að skipta honum í tvö jafngóð lið í riðlinum og það vann alltaf annað hvort liðanna okkar titillinn."
Á hvaða tímapunkti ákvað Andri að hætta í körfubolta og af hverju?
„Ég hætti líklega vegna þessa að mér fannst betri og meiri framtíð í fótboltanum. Ég var auk þess snemma byrjaður með meistaraflokki þar og valinn í landslið og því valdi ég fótboltann."
Súrt tap á Shellmótinu en sigur í vító fyrir norðan
Andri segir frá því í 'hinni hliðinni' að mestu vonbrigðin á ferlinum væru tap í úrslitaleik Shell-mótsins í Vestmannaeyjum.
Af hverju man Andri svona vel eftir þeim leik?
„Þetta var í rauninni fyrsti alvöru leikurinn á mínum ferli. Það er efst í minni mínu hvað það var súrt að tapa honum."
Er einhver hápunktur sem Andri man eftir úr yngri flokkunum?
„Hápunkturinn er líklega þegar við unnum N1-mótið á Akureyri eftir vítaspynukeppni."
Bronsverðlaun í Kína
Ólympíuleikar æskunnar voru haldnir í Kína árið 2014. Er sú ferð fyrsta landsliðsverkefnið sem Andri tók þátt í?
„Það var fyrst einhver undankeppni í Sviss þar sem spilað var um laust sæti í Kína. Ég fór ekki í það verkefni þannig að mótið í Kína var fyrsta landsliðsverkefnið hjá mér."
Hvernig var að taka þátt í mótinu í Kína?
„Það var rugl gaman að ferðast með fullt af mínum bestu vinum til Kína. Við spiluðum um Ólympíumedalíu og komum heim með bronsið."
Lítill spiltími hjá yngsta markaskorara KR
Árið 2015 verður Andri yngsti markaskorari í sögu KR í Reykjavíkurmótinu og svo skorar hann í bikarleik gegn Keflavík um sumarið. Með því marki varð Andri yngsti markaskorari KR í keppnisleik.
Innkoma Andra gegn Keflavík vakti athygli og umræða um spiltíma ungra KR-inga var mikið í umræðunni í kjölfarið. Andri spilaði tvo bikarleiki þetta sumarið og sinn fyrta deildarleik. Árið 2016 meiðist Andri og spilar einungis fjóra deildarleiki með KR.
Var pirrandi fyrir Andra að sitja á bekkinn með alla umræðuna í gangi um takmarkaðan spiltíma? Sér hann þetta í öðru ljósi þegar hann lítur til baka?
„Mér fannst það pirrandi á þessum tíma engin spurning en svona þegar maður lítur til baka þá var maður bara 15-16 ára gamall þannig það eitt að vera alltaf í hóp og æfa með einu sterkasta liði deildarinnar var bara nokkuð fínt afrek. En svo veit maður ekki hvort ég hefði spilað meira ef ég hefði ekki meiðst illa á hné."
Verkefnið var að æfa og spila fótbolta
Fréttaritari vildi forvitnast um hvort að einhver af liðunum sem Andri hefði farið á reynslu til hefðu verið nálægt því að fá undirskrift frá leikmanninum. Andri fór til reynslu hjá Feyenoord, Stoke, Stabæk, Rosenborg og AZ en skrifar undir hjá Start eftir tímabilið 2017 með KR.
„Mitt verkefni var bara að æfa og spila fótbolta. Svo voru aðrir sem sáu um hluti eins og samninga."
Fyrsta tímabilið í atvinnumennsku
Andri byrjaði á því að vera á bekknum hjá Start en er svo lítið í hópnum hjá Start þegar líður á tímabilið. Hann spilaði einn bikarleik árið 2018. Hvað lærði hann af þessu fyrsta ári í atvinnumennsku?
„Ég lærði að vera atvinnumaður," sagði Andri einfaldlega.
Víkingur 2019
Víkingsliðið 2019 var mikið í umræðunni. Liðið þótti spila skemmtilegan bolta en stigin fylgdu ekki alltaf með. Liðið endar sem bikarmeistari.
Hvernig seldi Víkingur Andra að ganga í raðir félagsins að láni frá Start?
„Stóra ástæðan var sú að Arnar Gunnlaugs er þjálfari Víkings. Hann var aðstoðarþjálfarinn minn þegar ég var í KR og þekkir mig mjög vel bæði sem leikmann og persónu."
Gengur vel hjá Start
Andri hefur vakið athygli á undirbúningstímabilinu hjá Start. Hann hefur verið iðinn við kolann þegar kemur að markaskorun. Kom eitthvað annað til greina en að taka slaginn með Start þetta árið?
„Það gengur bara mjög vel hjá mér núna og því er enginn spurning að stefnan er að berjast um sæti í liðinu hér úti. Markmiðið er að fá reglulega að spila í þessari sterku deild," sagði Andri að lokum.
Athugasemdir