Mútumálið mikla sem hefur umturnað spænska fótboltaheiminum fer fyrir dóm á Spáni á þessu ári.
Þar er Barcelona sakað um mútugreiðslur til Enriquez Negreira, 77 ára gömlum fyrrum varaforseta spænska dómarasambandsins, sem þarf ekki að bera vitni vegna Alzheimer greiningar.
Öll félögin í efstu deild á Spáni eru hneyksluð vegna málsins þar sem gögn sýna að Barca greiddi rúmlega 7 milljónir evra til Negreira á árunum 2001 til 2018. Samkvæmt stjórnendum Barca eru þessar greiðslur fyrir ráðgjafastörf en fáir sem kjósa að trúa því.
Ákæruvaldið á Spáni fer með málið og hefur kallað á Luis Enrique og Ernesto Valverde, fyrrum leikmenn og þjálfara Barcelona, til að bera vitni fyrir dómi. Enrique starfaði síðast sem landsliðsþjálfari Spánar þar til liðið var slegið út af HM í Katar og er Valverde við stjórnvölinn hjá Athletic Bilbao.
Þar til fyrir skömmu höfðu öll félög spænsku deildarinnar nema Real Madrid tjáð sig um mútumálið. Nú hefur Real bæst við restina af deildinni til að fordæma hegðun Barca og lofa að taka þátt í málinu fyrir dómstólum.
Barca gæti verið í alvarlegum vandræðum ef félagið verður fundið sekt um mútugreiðslur. Félagið á þegar í miklum fjárhagsvandræðum en trónir þó á toppi spænsku deildarinnar og er með gríðarlega sterkt lið.