Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   þri 13. apríl 2021 13:21
Magnús Már Einarsson
KSÍ svarar ASÍ og segist meðvitað um umræðuna
Verkamenn að störfum í Katar.
Verkamenn að störfum í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Höfuðstöðvar KSÍ í Laugardal.
Höfuðstöðvar KSÍ í Laugardal.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna gagnrýni ASÍ þar sem krafist er þess að KSÍ taki „af­drátt­ar­lausa og löngu tíma­bæra af­stöðu" með rétt­ind­um verka­fólks og gagn­rýni með skýr­um hætti yf­ir­völd í Kat­ar og yf­ir­stjórn FIFA.

Smelltu hér til að skoða bréfið frá ASÍ

Í svari KSÍ segir sambandið meðvitað um stöðu mála og umfjöllun um aðbúnað verkafólks. Sambandið segist hafa átt í samskiptum við FIFA og önnur knattspyrnusambönd. Þá segist KSÍ hafa tekið þátt í sérstökum vinnuhóp þar sem þessi mál eru rædd.

Yfirlýsing KSÍ
KSÍ er aðili að FIFA eins og önnur knattspyrnusambönd og landslið Íslands eins og annarra þjóða taka þátt í mótum á vegum FIFA. FIFA fylgist grannt með uppbyggingu vegna HM 2022 og er þannig fulltrúi aðildarþjóða sinna gagnvart yfirvöldum í Katar og skipuleggjendum keppninnar.

KSÍ er meðvitað um stöðu mála gagnvart HM 2022 í Katar og umfjöllun um aðbúnað verkafólks við uppbyggingu mannvirkja. KSÍ hefur átt í samskiptum við FIFA og önnur knattspyrnusambönd vegna þessa.

Aðaláhersla KSÍ í þessu sambandi undanfarin ár hefur verið þátttaka í sérstökum vinnuhóp knattspyrnusambanda á Norðurlöndunum þar sem fjallað er um málefni tengd HM í Katar – málefni eins og mannréttindi, aðbúnað verkamanna, kynjajafnrétti og fleira. Í vinnuhópnum er farið yfir sameiginleg samskipti og upplýsingaöflun knattspyrnusambanda Norðurlandanna gagnvart knattspyrnuyfirvöldum í Katar og FIFA. Vinnuhópurinn skipuleggur m.a. heimsóknir til Katar þar sem aðstæður eru skoðaðar, rætt við skipuleggjendur keppninnar og við verkamenn. Í undirbúningi er heimsókn síðar á árinu 2021.

Það er og hefur verið mikill þrýstingur á FIFA og á yfirvöld í Katar vegna mannréttindamála. Sá þrýstingur mun halda áfram og hann á að halda áfram. Keppnin sjálf og kastljós heimsbyggðarinnar setur þrýsting á yfirvöld í Katar að skoða mannréttindamál í víðu samhengi og vinna að úrbótum. KSÍ mun halda áfram að leggja lóð sín á vogarskálarnar í þeim efnum.

FIFA hefur unnið að umbótum á umsóknarferli fyrir lokakeppnir og kröfur til umsækjenda eru mun ríkari í dag en þær voru á þeim tíma sem samþykkt var að halda lokakeppni HM 2022 í Katar, kröfur sem m.a. snúa að uppbyggingu mannvirkja og aðbúnaði þess fólks sem starfar við þá uppbyggingu. Lykilbreyting í þessu sambandi er að aðildarsambönd FIFA munu greiða atkvæði þegar kemur að vali á mótshaldara, í stað valnefndar FIFA áður.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner