Framherjinn efnilegi Cameron Archer er kominn aftur til Aston Villa eftir að Sheffield United féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Sheffield borgaði metfé í sögu félagsins til að festa kaup á Archer síðasta sumar. Hann kostaði um 18 milljónir punda en stóðst ekki væntingarnar sem til hans voru gerðar.
Archer spilaði 32 leiki með Sheffield á tímabilinu og skoraði aðeins fjögur mörk, auk þess að gefa eina stoðsendingu.
Það var þó sérstakt ákvæði í kaupsamningi Archer sem virkjaðist þegar Sheffield mistókst að bjarga sér frá falli úr úrvalsdeildinni. Það ákvæði neyðir Aston Villa til að kaupa leikmanninn unga til baka.
Archer er því kominn aftur til Villa og á hann þrjú ár eftir af samningi sínum þar.
Villa borgar um 14 milljónir punda fyrir leikmanninn, eða fjórum milljónum minna heldur en Sheffield greiddi í fyrra.
Archer var mikilvægur hlekkur í U21 landsliði Englendinga þar sem hann skoraði 6 mörk í 11 leikjum.
Athugasemdir