Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var virkilega ánægður með viðhorf og ákefð leikmanna í 2-1 sigrinum á Tottenham í grannaslag á Emirates í kvöld.
Arsenal-menn duttu úr leik í enska bikarnum á dögunum og eru þá í erfiðri stöðu í undanúrslitum deildabikarsins.
Það hefur verið svolítið þung ára yfir liðinu síðustu daga, en leikmenn svöruðu með góðri frammistöðu í kvöld. Liðið lenti undir en það hafði engin áhrif. Arsenal jafnaði skömmu síðar og skoraði Leandro Trossard síðan sigurmarkið undir lok hálfleiksins.
„Strákarnir voru stórkostlegir í dag. Við spiluðum 120 mínútur fyrir minna en 72 tímum síðan í annar keppni sem við duttum út úr, sem er alls ekki auðvelt fyrir andlegu hliðina. Mér fannst við spila frábærlega í þessum leik.“
„Við gerðum okkur svolítið erfitt fyrir. Mér fannst við verðskulda að skora alla vega eitt eða tvö í viðbót, en við þurftum samt að þjást. Við sýndum að við höfum getuna til að gera það. Viðhorfið, tilgangurinn og ákefðin í leikmönnunum sem spiluðu var mjög góð.“
„Mér fannst við ótrúlega góðir í síðasta leik gegn United en fórum einhvern veginn að því að tapa honum. Þetta snýst alltaf um næsta leik og það er gott að við unnum í dag. Við getum notið þess í nokkra tíma og farið síðan að hugsa um Aston Villa.“
„Við getum ekki verið að vorkenna sjálfum okkur. Frammistöðunni getum við stjórnað og við höfum verið mjög stöðugir þegar það kemur að henni. Úrslitin eru ekki alltaf eftir því en maður fær ekki alltaf það sem maður verðskuldar. Ég er samt viss um að það muni koma svona ef ég horfi til lengri tíma,“ sagði Arteta.
Hann sagði síðan að Arsenal væri á fullu í því að leita að styrkingu í þessum glugga. Gabriel Jesus verður lengi frá og þá er þeirra besti maður, Bukayo Saka, frá næstu mánuði.
Arteta segir félagið komið á fullt í leit að leikmönnum.
„Já, það er klárt því við misstum tvo mikilvæga leikmenn. Bukayo verður frá í allt að þrjá mánuði og Gabriel Jesus verður mjög lengi frá. Við munum reyna í þessum glugga og erum að stöðugt að leita. Við munum reyna og sjáum síðan hvað við getum gert.“
Hinn ungi og efnilegi Myles Lewis-Skelly var besti maður Arsenal í leiknum og fékk hann stórt hrós frá spænska stjóranum eftir leikinn.
„Hann var stórkostlegur í dag. Hann er með alvöru persónuleika og hefur svo mikla trú á sjálfum sér. Hann er með þetta viðhorf í sér. Myles þurfti að spila gegn Johnson og Kulusevski og ráða við tilefnið. Það er ekki auðvelt, en hann stóð sig frábærlega,“ sagði Arteta.
Arsenal er nú fjórum stigum á eftir toppliði Liverpool, sem á að vísu leik til góða.
Athugasemdir