Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
   mið 15. maí 2024 11:49
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Vísir | 433 
Óvandvirkni við samningagerð hjá KA reyndist dýrkeypt
KA hyggst áfrýja dómnum.
KA hyggst áfrýja dómnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Illa orðað samnings­á­kvæði virðist hafa orðið KA að falli en félagið var dæmt til að greiða Arnari Grétarssyni, fyrrum þjálfara sínum, tæpar ellefu milljónir króna auk dráttarvaxta vegna vangoldinna bónusa.

Vísir hefur dóminn undir höndum og birtir samningsákvæðið sem deilt var um:

„Tryggi KA sér þátttökurétt fær þjálfari sem nemur 10% af allri þeirri fjárhæð sem félag fær greitt frá UEFA vegna þátttöku í Evrópukeppni. Þetta á eingöngu við það fjármagn sem er vegna leikjanna, en nær ekki til ferðagreiðslna eða þeirra greiðslna sem eru óháðar leikjum í Evrópukeppni.“

Arnar var þjálfari KA í fyrstu 22 deildarleikjum sumarsins 2022, þegar KA tryggði sér Evrópusæti, áður en Hallgrímur Jónasson tók við stjórnartaumunum. Arnar var skikkaður í leyfi frá KA vegna viðræðna hans við Val sem hann tók við að tímabilinu loknu.

Samkvæmt dómi felldi KA ekki niður rétt Arnars til bónusgreiðslna með því að afþakka starfskrafta hans í síðustu fimm leikjunum. KA vildi meina að hann hafi sýnt óheiðarleika með því að ræða við Val en samkvæmt dómnum þykja viðræðurnar eðlilegar þar sem hann átti aðeins mánuð eftir af samningi sínum við KA á þeim tímapunkti.

„Er það því niðurstaða dómsins að stefnandi hafi verið þjálfari KA í skilningi ákvæðisins þegar félagið tryggði sér þátttökurétt í Evrópukeppninni,“ segir í dómnum, samkvæmt frétt Vísis.

KA-menn vildu þá meina að Arnar ætti rétt á greiðslum fyrir það að koma liðinu í Evrópukeppni en ekki árangurinn sem náðist þegar í hana var komið sumarið 2023. Samkvæmt dómi fæst hinsvegar ekki annað skilið úr ákvæði samningsins en það eigi við um allar þær greiðslur sem KA fær frá UEFA vegna þátttöku í Evrópukeppninni.

Samkvæmt frétt 433.is hyggst KA áfrýja þessum dómi Héraðsdóms Norðurlands til Landsréttar.
Athugasemdir
banner
banner
banner