sun 15. nóvember 2020 16:47
Elvar Geir Magnússon
U21 landsliðið fer á EM ef Svíþjóð vinnur ekki Ítalíu
Kemst Ísland á EM?
Kemst Ísland á EM?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir sigur Íslands gegn Írum í undankeppni EM í dag eru möguleikar okkar liðs ansi miklir á því að komast í lokakeppnina.

Ísland er í öðru sæti síns riðils og ef liðið endar þar kemst okkar lið áfram í lokakeppnina sem eitt af þeim fimm liðum sem er með besta árangurinn í öðru sæti.

Farið er eftir stigum gegn liðum sem enda í 1., 3., 4. og 5. sæti í riðlinum. Armenía hefur sagt sig úr keppni og hefur íslenska liðið lokið leik í riðlinum. UEFA mun að öllum líkindum stroka út alla leiki Armena.

Vegna Covid-19 ástandsins er umspilinu sleppt í undankeppninni að þessu sinni.

Svíþjóð á enn möguleika á því að ná öðru sæti riðilsins og ýta Íslandi niður í þriðja. Þá þarf Svíþjóð að vinna Ítalíu í lokaumferðinni á miðvikudaginn.

Ef Ítalía, sem á heimaleik, vinnur eða gerir jafntefli þá kemst Ísland áfram í lokakeppnina. Leikur Ítalíu gegn Svíþjóð hefst klukkan 16:30 á miðvikudag.

Vegna heimsfaraldursins verður lokakeppnin sem Ungverjaland og Slóvenía halda saman með öðru sniði en venjulega. Riðlakeppnin, sem sextán lið taka þátt í, fer fram í lok mars. Útsláttarkeppnin verður svo 31. maí – 6. júní; 8-liða úrslit, undanúrslit og úrslit.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner