Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   þri 16. ágúst 2022 19:53
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Þróttur slátraði ÍBV - Loksins vann Selfoss
Ólöf Sigríður átti stórleik gegn ÍBV.
Ólöf Sigríður átti stórleik gegn ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Brenna Lovera skoraði langþráð mark Selfyssinga.
Brenna Lovera skoraði langþráð mark Selfyssinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Tveimur fyrstu leikjum kvöldsins var að ljúka í Bestu deild kvenna þar sem Þróttur R. rúllaði yfir ÍBV í baráttunni um þriðja sætið.


Þróttur er með 25 stig og situr í þriðja sæti, einu stigi fyrir ofan Stjörnuna. Breiðablik er í öðru sæti með 28 stig og ÍBV með 21 stig.

Eyjakonur byrjuðu leikinn betur en Andrea Rut Bjarnadóttir tók forystuna fyrir Þrótt eftir frábæra stoðsendingu Ólafar Sigríðar Kristinsdóttur og stjórnuðu heimakonur spilinu eftir það. Sandra Voitare náði þó að jafna fyrir ÍBV gegn gangi leiksins eftir fasta sendingu innfyrir vörnina í mjög beinskeyttri sókn.

Danielle Julia Marcano kom Þrótti aftur yfir eftir magnaða sókn og tóku heimakonur aftur völdin á vellinum eftir jafnræði í nokkrar mínútur. Danielle bætti öðru marki við fyrir leikhlé eftir stórkostlegan undirbúning Ólafar Sigríðar sem átti frábæran leik.

Þróttarar héldu áfram að stjórna ferðinni í síðari hálfleik og bætti Ólöf Sigríður þar marki við og stoðsendingu í því sem reyndist 5-1 stórsigur. 

Lestu um leikinn

Þróttur R. 5 - 1 ÍBV
1-0 Andrea Rut Bjarnadóttir ('10)
1-1 Sandra Voitane ('18)
2-1 Danielle Julia Marcano ('35)
3-1 Danielle Julia Marcano ('44)
4-1 Ólöf Sigríður Kristinsdóttir ('67)
5-1 Freyja Karín Þorvarðardóttir ('70)

Akureyringar kíktu þá í heimsókn til Selfoss og úr varð nokkuð jafn og spennandi leikur þar sem heimakonur nældu sér þó í langþráðan sigur.

Selfoss hafði tapað fjórum og gert eitt jafntefli í fimm síðustu deildarleikjum sínum auk þess að tapa í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Það sem meira er þá tókst Selfosskonum ekki að skora eitt einasta mark í þessum leikjum. Það var því fagnað dátt þegar Brenna Lovera kom boltanum í netið strax á sjöttu mínútu.

Selfoss hélt forystunni vel og gerði Tiffany Sornpao mjög vel þegar hennar var þarfnast. Hún stöðvaði hættulega skyndisókn með fingurgómunum í fyrri hálfleik og varði svo dauðafæri í seinni hálfleik skömmu áður en Susanna Joy Friedrichs tvöfaldaði forystuna og innsiglaði sigurinn.

Kærkominn sigur Selfyssinga kemur liðinu upp í 18 stig, sjö stigum eftir Þrótti í þriðja sæti.

Þór/KA er áfram í fjögurra liða fallbaráttu, einu stigi fyrir ofan Aftureldingu og þremur stigum fyrir ofan botnlið KR.

Lestu um leikinn

Selfoss 2 - 0 Þór/KA
1-0 Brenna Lovera ('6)
2-0 Susanna Joy Friedrichs ('77)


Athugasemdir
banner
banner