Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 17. apríl 2020 18:00
Garðar Örn Hinriksson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Leikmenn sem hafa leikið fyrir bæði Man Utd og Liverpool
Garðar Örn Hinriksson
Garðar Örn Hinriksson
Phil Chisnall.
Phil Chisnall.
Mynd: Getty Images
Síðan Phil Chisnall yfirgaf Manchester United fyrir Liverpool árið 1964 hefur enginn leikmaður farið beint á milli félaganna tveggja eftir það. Nokkrir leikmenn hinsvegar hafa leikið fyrir bæði félögin eftir það en hafa komið frá öðrum félögum, en þar má til dæmis nefna Paul Ince sem lék með Inter Milan á milli þess sem hann var hjá Manchester United og Liverpool. Peter Beardsley varð svo frægur að ná að leika einn bikarleik með Manchester en áður en hann fór til Liverpool lék hann með Vancouver Whitecaps og Newcastle United. Nýjasta dæmið er þegar Michael Owen fór yfir til Manchester árið 2009 eftir að hafa leikið með Real Madrid og Newcastle United eftir að hann yfirgaf Liverpool árið 2004.

Árið 2007 kom, ótrúlegt en satt, tilboð frá Liverpool í varnarmann Manchester United, Gabriel Heinze, sem Manchester hafnaði um leið enda lítill sem enginn vinskapur á milli félagana tveggja. Forráðamenn Manchester sögðu að Gabriel gæti farið til félaga utan Englands ef hann vildi yfirgefa klúbbinn. Annað var ekki til umræðu. Gabriel gerði það opinbert að hann vildi fara til Liverpool en sú yfirlýsing fór illa í stuðningsmenn Manchester sem eftir það litu á Gabriel sem svikara og vildu ekkert með hann hafa eftir það, en fram að þessu leiðindamáli höfðu stuðningsmenn Manchester sungið „Argentina“ til heiðurs leikmanninum. Gabriel, sem þyrfti að fræðast meira um orðið „erkifjandi“, fór á endanum til Real Madrid. En hvaða leikmenn hafa farið beint á milli félagana tveggja þar sem lítill vinskapur ríkir á milli?

Varnarmaðurinn Tom Chorlton varð sá fyrsti til að fara beint á milli félaganna tveggja. Tom var leikmaður Liverpool frá árinu 1904 til ársins 1912 þegar hann fór yfir til Manchester United. Hann lék alls 117 leiki fyrir Liverpool en lék aðeins 4 leiki fyrir Manchester á þeim tveimur árum sem hann var hjá félaginu.

Jackie Sheldon var fyrsti leikmaður Manchester United sem fór beint yfir til Liverpool. Hann lék með Manchester frá árinu 1910 til ársins 1913 áður en hann fór til Liverpool borgar. Með Manchester lék hann 26 leiki og varð meðal annars Englandsmeistari með félaginu. Með Liverpool lék hann frá árinu 1913 til ársins 1921 án þess að vinna titil. Hann gat þó ekki leikið allan þennan tíma fyrir Liverpool því ekkert var leikið í ensku deildinni frá árinu 1914 til ársins 1918 vegna fyrri heimstyrjaldarinnar. Reyndar var Jackie dæmdur í lífstíðarbann frá knattspyrnu árið 1915 eftir að upp komst um stór veðmálasvik í knattspyrnuheiminum þar sem hann reyndist vera höfuðpaurinn. Í lok fyrri heimstyrjaldarinnar þremur árum síðar var banninu hinsvegar aflétt og snéri hann aftur til Liverpool.

Tom Miller lék með Liverpool frá árinu 1912 til ársins 1920. Með félaginu lék hann alls 146 leiki áður en hann gekk til liðs við Manchester United árið 1920. Með Manchester lék hann aðeins eitt keppnistímabil.

Fred Hopkin staldraði stutt við hjá Manchester United áður en hann fór til Liverpool árið 1921. Fred lék 70 leiki með Manchester frá árinu 1919 til ársins 1921. Hann lék síðan 335 leiki fyrir Liverpool á árunum 1921-31.

Á tæpum einum áratug fóru þrír leikmenn frá Liverpool til Manchester United. Fyrstur í röðinni var Tommy Reid. Hann hóf feril sinn hjá Liverpool en eftir að hafa verið á láni hjá Oldham Athletic flutti hann sig yfir til Manchester United árið 1929 þar sem hann lék næstu fjögur árin. Ted Savage yfirgaf Anfield fyrir Old Trafford árið 1938 eftir að hafa leikið þar í sjö ár. Ted lék aðeins eitt keppnistímabil með Manchester United. Allenby Chilton hóf feril sinn hjá Seaham Colliery F.C. áður en hann fór til Liverpool árið 1938. Hann náði þó ekki að spila einn einasta leik fyrir félagið. Sama ár var hann kominn til Manchester United þar sem hann lék til ársins 1955. Hann lék 352 leiki fyrir félagið.

Það var ekki fyrr en árið 1954 sem að næsti leikmaður fór á milli félaganna tveggja þegar Thomas McNulty yfirgaf Manchester United fyrir Liverpool. Hann lék aðeins 57 leiki með Manchester frá árinu 1949 til ársins 1954 þegar hann gekk til liðs við Liverpool þar sem hann lék næstu fjögur árin eftir það. Hann varð m.a. Englandsmeistari með Manchester en féll niður um deild með Liverpool.

Sá síðasti til að fara beint á milli félaganna tveggja var áðurnefndur Phil Chisnall árið 1964. Hann lék með Manchester United frá árinu 1959 (sem atvinnumaður frá árinu 1961) til ársins 1964. Hann náði að spila aðeins 47 leiki fyrir félagið áður en hann var keyptur til Liverpool árið 1964 á 25 þúsund pund. Hann lék ennþá færri leiki fyrir Liverpool en hann lék aðeins 6 leiki fyrir félagið á þeim þremur árum sem hann dvaldi á Anfield. Hans verður líklega aðeins minnst sem síðasta leikmanninum sem fór beint á milli félaganna tveggja, Manchester United og Liverpool. Það verður að teljast harla ólíklegt að það komi til með að eiga sér stað aftur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner