Morgunblaðið og 433 hafa undanfarna daga farið fram á þjálfaraskipti hjá íslenska karlalandsliðinu aðeins 18 mánuðum eftir að Norðmaðurinn Age Hareide tók við liðinu.
Báðir miðlar segja að KSÍ geti nýtt sér uppsagnarákvæði í samningi Hareide í nóvember og hvetja til þess með tillögu að nýjum eftirmanni.
Hörður Snævar Jónsson ritstjóri 433.is ritaði grein þar sem hann segir í fyrirsögn Hareide vera latan Norðmann og vill skipta honum út.
433.is: Latur Norðmaður sem ætti að víkja fyrir augljósum kosti
„Hareide hefur frá fyrsta degi í starfi sýnt lítinn áhuga á því að vera hér á landi, hann er ekki fyrsti erlendi þjálfari okkar á síðustu árum en sá þjálfari sem hefur minnstan áhuga á að vera hérna. Hann heldur blaðamannafundi sína í gegnum Zoom í stað þess að mæta til landsins, hann kemur iðulega til landsins eins seint og mögulegt er," skrifar Hörður Snævar í ritstjórnargrein sinni sem birtist á vefnum í fyrrakvöld.
Bjarni Helgason íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu tekur í sama streng í blaði dagsins og telur íslenska landsliðið ekki í fyrsta sæti hjá norska þjálfaranum.
mbl.is: Einn augljós kostur sem næsti landsliðsþjálfari
„Staðreyndin er samt sú að hann hefur ekki náð að tengjast íslensku þjóðinni líkt og forverar hans hafa gert. Hann kynnir leikmannahópa sína fyrir komandi verkefni í gegnum samfélagsmiðilinn Teams og ef liðið leikur útileiki í sama glugganum kemur hann ekki til landsins. Hann hefur ekki eytt miklum tíma hér á landi og hefur sínar ástæður fyrir því en á sama tíma veltir maður því líka fyrir sér hvort íslenska landsliðið sé í fyrsta sæti hjá honum," skrifar Bjarni í grein í Morgunblaðinu í dag.
Báðir hafa þeir skoðun á því hver á að taka við liðinu, Hörður Snævar nefnir Arnar Gunnlaugsson þjálfara Íslandsmeistara Víkings en Bjarni vill sjá Frey Alexandersson þjálfara Kotrijk í Belgíu taka við íslenska landsliðinu.
Age Hareide hefur stýrt íslenska landsliðinu i 18 leikjum síðan hann tók við liðinu fyrir 18 mánuðum síðan. 7 þessara leikja hafa unnist, 9 hafa tapast og tveimur lokið með jafntefli.
Athugasemdir