
KR hefur samið við tvo bandaríska leikmenn fyrir keppni í Lengjudeild kvenna í sumar en þær heita Arden O´Hara Holden og Kathleen R. Pingel.
Kathleen (Katie) sem er 23 ára hefur spilað með öllum yngri landsliðum Bandaríkjanna. Þá spilaði hún með háskólanum, Cal State Long Beach, og var með því liði í öðru sæti í Vesturdeildinni tvö ár í röð.
Í fyrra var hún búin að skrifa undir samning um að spila í efstu deildinni á Spáni, en til þess kom þó ekki þar sem deildinni var aflýst vegna Covid-19. Hún fór því á skammtímasamning til Depertivo Saprissa í efstu deild á Costa Rica.
Arden sem er 24 ára, er reynslumikill leikmaður. Hún var í liðið háskólans Ohio State Buckeyes sem leikur í 1. Deild háskólaboltans. Þá var hún á mála hjá Portland Thorns en fór þaðan til BIIK Kazygurt í Kazhakstan og lék til úrslita um deildarbikar þar í landi. Þá spilaði hún með þeim í 5 leikjum í Meistaradeild Evrópu.
Á síðustu leiktíð samdi hún við Boavista í Portúgal en náði ekki að spila þar vegna heimsfaraldursins.
KR féll úr Pepsi Max-deildinni á síðasta tímabili en stefnir aftur upp.
„Framundan er barátta um að koma liðinu aftur í efstu deild og við bindum vonir við að þessir leikmenn styrki liðið okkar fyrir komandi átök. Við bjóðum þær Katie og Arden innilega velkomnar í KR," segir á heimasíðu KR.
Athugasemdir