Tilboð væntanlegt í Ederson - Man Utd hefur rætt við Frank og Pochettino - Frank, Maresca, McKenna og De Zerbi á blaði Chelsea
   fös 18. júní 2021 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Léttist um sjö kíló og líður betur - „Finn það núna að sénsinn er ekki farinn"
Sindri Kristinn er ekki búinn að útiloka þann möguleika að verða atvinnumaður í framtíðinni
Sindri Kristinn er ekki búinn að útiloka þann möguleika að verða atvinnumaður í framtíðinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrst vill hann þó gera sig gildandi með Keflavík í sumar
Fyrst vill hann þó gera sig gildandi með Keflavík í sumar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson
Hannes Þór Halldórsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sindri Kristinn Ólafsson steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Keflavík sumarið 2014. Hann fékk tækifærið 2015 en var svo varmarkvörður fyrir Beiti Ólafsson sumarið 2016. Frá og með árinu 2017 hefur Sindri svo verið aðalmarkvörður Keflavíkur.

Sjá einnig:
Sindri Kristinn: Var eiginlega dálítið meira en lífsnauðsynlegt

Fótbolti.net heyrði í Sindra í dag og spurði hann út í eigin frammistöðu. Getur hann verið sammála því að hann sé tilbúnari í slaginn í efstu deild núna en hann var þegar hann var að stíga sín fyrstu skref?

Komið að sér að gera sig gildandi í deildinni
„Það er alveg rétt að þega ég kom inn í deildina árið 2014 og 2015 bara sextán, sautján ára þá brilleraði ég ekki. Svo í síðasta skiptið sem við vorum uppi þá brilleraði hvorki ég né neinn annar í liðinu," sagði Sindri.

„Það er komið að mér að gera mig gildandi í deildinni og mér finnst ég hafa gert það ágætlega það sem af er tímabili þrátt fyrir að við höfum lekið dálítið af mörkum. Ég er að fíla mig mjög vel og langar að sýna að ég, ásamt öðrum, geti fest Keflavík í þessari deild. Það er það sem mig langar að sýna á þessu tímabili.”

Aukið sjálfstraust kom með bættu formi
Sindri breytti í fyrra um lífsstíl og fór að telja macros með leiðsögn frá Inga Torfa Sverrissyni. Hefur það haft góð áhrif?

„Fyrir síðasta tímabil fór ég til Inga og sem dæmi er ég orðinn sex eða sjö kílóum léttari, er svipað sterkur en töluvert fljótari. Mér fannst ég sýna það líka á síðasta tímabili, ég var sneggri og spilamennskan batnaði helling. Það er að hjálpa mér inn í þetta tímabil, maður er að fá fleiri leiki, maður eflist með því og lærir líka af mistökunum. Maður er ennþá að læra fullt og maður finnur í þessari deild fullt af hlutum sem maður á eftir að læra.”

Fylgir þessu aukið sjálfstraust?

„Manni líður betur í búningnum að vera í betra formi og líður betur á vellinum. Maður er að taka bolta sem maður tók ekki áður og þegar spilamennskan batnar þá eykst sjálfstraustið. Maður getur samt átt erfiða leiki og þá snýst þetta um sálræna þáttinn, að taka það ekki með sér inn í næsta leik. Markmenn gera alveg mistök. Hannes (Þór Halldórsson) sem dæmi, ef hann gerir mistök þá kemur hann eins og kóngur inn í næstu þrjá eða fjóra leiki. Maður horfir upp til þessara stráka sem eru að standa sig best í þessu.”

Ferill Hannesar gefur Sindra vonarneista
Síðasta haust bauðst Sindra að ganga í raðir Oldham á Englandi. Var það spark upp á framtíðina, að möguleikinn væri ekki farinn?

„Ég viðurkenni að eftir að ég fór út á reynslu 2019 til Odd í Noregi að þá hélt ég að sénsinn væri farinn. Þeir voru mjög nálægt því að semja við mig en náðu ekki að selja markmanninn sem þeir ætluðu að losa."

„Þessi áhugi Oldham sýnir að það sé verið að fylgjast með manni en þetta var bara ekki alveg rétta skrefið þá. Ég finn það núna að sénsinn er ekki farinn og svo ég nefni Hannes aftur þá sér maður að hann fer seint út og það gefur manni vonarneista að þetta sé ekki farið. Sama hvort það væri eitthvað félag innanlands sem myndi sýna manni áhuga eða erlendis. Maður getur ennþá tekið skrefið upp á við,”
sagði Sindri sem er 24 ára gamall.

Hannes er fæddur árið 1984 og lék á Íslandi út tímabilið 2013 áður en hann hóf sinn feril sem atvinnumaður. Hannes kom svo aftur til Íslands fyrir tímabilið 2019 og hefur leikið með Val síðan.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner