Liverpool skoðar Davies - City fer á markaðinn - Man Utd vill Gutierrez - Bruno og Garnacho ekki öruggir - Fleiri orðaðir frá United
   lau 18. nóvember 2023 18:45
Elvar Geir Magnússon
Lissabon
Portúgalskt partí á vellinum þar sem allt snýst um Ronaldo
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið æfði á Estádio José Alvalade síðdegis í dag, heimavelli Sporting Lissabon. Þar mun Portúgal taka á móti Íslandi annað kvöld í lokaleik liðanna í riðlinum í undankeppni EM.

Portúgal er með fullt hús í riðlinum og hefur hreinlega rúllað yfir hann, eins og sparkspekingar spáðu fyrirfram.

Heimamenn ætla að slá upp veislu í leiknum á morgun og búið að koma fyrir portúgölskum fánum í öllum sætum á vellinum. Það á að fagna góðum árangri liðsins í undankeppninni.

Fyrir leik munu Bruno Fernandes og Ruben Dias verða heiðraðir fyrir að ná 50 landsleikjum fyrir Portúgal.

Estádio José Alvalade heitir eftir stofnanda Sporting Lissabon en leikvangurinn tekur rétt rúmlega 50 þúsund manns.

Hann var endurbyggður frá grunni fyrir Evrópumótið 2004. Fimm leikir mótsins fóru fram á vellinum, þar á meðal var sigurleikur Portúgals gegn Hollandi í undanúrslitum. Hann fór 2-1.

Leikvangurinn er í notkun dagsdaglega en sambyggðir við hann eru verslanir, veitingastaðir, bíóhús og líkamsræktaraðstaða. Eitthvað sem við Íslendingar gætum skoðað ef við reisum einhvern daginn nýjan þjóðarleikvang.

Fréttamaður heimsótti félagsverslun Sporting Lissabon fyrir æfinguna í dag og þar snýst allt gjörsamlega um Ronaldo. Hann lék fyrir Sporting og var keyptur til Manchester United eftir að hafa farið á kostum átján ára gamall í æfingaleik gegn liðinu á þessum leikvangi 2003.

Ronaldo verður væntanlega í byrjunarliði portúgalska landsliðsins á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 19:45.

Hér má sjá myndir sem Hafliði Breiðfjörð tók af leikvangnum í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner