þri 19. janúar 2021 11:37
Magnús Már Einarsson
Mikill vilji að fá Lars Lagerback inn í þjálfarateymi Íslands
Tom Joel styrktarþjálfari - Halldór markmannsþjálfari
Lars Lagerback
Lars Lagerback
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, hefur fundað með Lars Lagerback um að vera ráðgjafi í þjálfarateymi landsliðsins. Þetta kemur fram á 433.is í dag.

Lars var þjálfari íslenska landsliðsins frá 2012 til 2016 en hann tók síðar við norska landsliðinu. Hinn 72 ára gamli Lars var rekinn úr starfi hjá Noregi í lok síðasta árs og er nú að skoða næstu skref hjá sér.

Arnar og Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari landsliðsins, funda aftur með Lars í vikunni en mikill vilji er fyrir því að fá hann inn í þjálfarateymið.

„Það er ekki komin niðurstaða, við töluðum við hann um helgina og eigum annan fund með honum í vikunni. Ég og Eiður tölum við hann í vikunni, við erum að reyna að finna lendingu,“ sagði Arnar Þór í samtali við 433.is í dag.

„Það er mikill vilji hjá okkur til að fá Lars með okkur í þetta, Eiður þekkir Lars miklu betur en ég. Eiður sagði við mig í gær að það væri ekki ekki bara þekking og reynsla sem Lars kemur inn í þetta. Heldur þekkir hann umhverfið, allt starfsfólkið og mikið af leikmönnum. Það er mikill vilji af okkar hálfu að fá hann inn.“

Þá greinir 433.is að Tom Joel sem var styrktarþjálfari íslenska landsliðsins undir stjórn Erik Hamren mun halda starfi sínu áfram. Joel er styrktarþjálfari hjá Leicester City en mikil ánægja var með hans störf á meðal leikmanna íslenska landsliðsins.

Þá er verið að ganga frá ráðningu á markmannsþjálfara liðsins. Arnar Þór sagði málið langt komið en vildi ekki staðfesta nein tíðindi þess efnis. Samkvæmt heimildum 433.is er það þó svo gott sem frágengið að Halldór Björnsson muni taka starfið.

Halldór var markmannsþjálfari U21 árs landsliðsins þegar Arnar og Eiður voru við störf þar.
Athugasemdir
banner
banner
banner