Manchester United mætir Championship-liði Coventry City í undanúrslitum enska FA bikarsins á morgun og svaraði Erik ten Hag spurningum á fréttamannafundi í gær.
Þar var hann meðal annars spurður út í ákvörðun enska fótboltasambandsins að hætta að endurtaka bikarleiki ef þeim lýkur með jafntefli.
„Þetta er mjög sorglegt fyrir breska fótboltamenningu en ég tel þetta líka vera óhjákvæmilega ákvörðun. Það er alltof mikið leikjaálag á toppliðunum, sem skrifast á FIFA og UEFA. Það er alltof mikið leikjaálag á leikmönnum og því þarf að linna, þetta er ekki gott fyrir heilsu leikmanna," sagði Ten Hag.
„Eins og ég segi þá finnst mér þetta mjög leiðinlegt fyrir breska fótboltamenningu en fyrir toppleikmenn þá er þetta jákvæð breyting. Þeir þurfa meiri hvíldartíma."
Ten Hag var þá spurður út í stöðuna á meiðslalista Rauðu djöflanna og gaf góðar fréttir. Hann telur að Harry Maguire, Antony og Scott McTominay geti allir verið klárir í slaginn um helgina.
Anthony Martial, Tyrell Malacia, Luke Shaw, Lisandro Martinez, Victor Lindelöf, Raphael Varane og Jonny Evans eru allir á meiðslalistanum sem stendur. Enginn þeirra nær leiknum á morgun nema mögulega Evans, sem er þó mjög tæpur.
Athugasemdir