Belgíski bakvörðurinn Thomas Meunier skrifaði í gær undir tveggja ára samning við franska félagið Lille en hann kemur á frjálsri sölu.
Meunier er 32 ára gamall og spilar stöðu hægri bakvarðar en hann var með þeim bestu í Evrópu fyrir nokkrum árum.
Varnarmaðurinn spilaði frábærlega með Club Brugge í heimalandinu áður en hann var keyptur til franska félagsins Paris Saint-Germain árið 2016.
Tveimur árum síðar var hann í belgíska landsliðinu sem hafnaði í 3. sæti HM og var hann meðal annars valinn í lið mótsins af Marca og Forbes.
Hann fór til Borussia Dortmund árið 2020 en náði aldrei sömu hæðum eftir það. Meunier spilaði fáa leiki fyrir Dortmund á þessum tíma og yfirgaf hann félagið í sumar þegar samningur hans rann út.
Meunier hefur nú samið við Lille í Frakklandi og gildir samningur hans til 2026.
Þar hittir hann íslenska landsliðsmanninn Hákon Arnar Haraldsson, sem kom til Lille frá FCK á síðasta ári.
Athugasemdir