Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og stöllur hennar í Anderlecht töpuðu fyrir Standard Liege, 1-0, í úrslitaleik belgíska bikarsins í dag.
Blikakonan kom til Anderlecht í byrjun árs og hefur komið sér vel fyrir.
Hún þreytti frumraun sína í byrjun febrúar og skoraði síðan fyrsta mark sitt mánuði síðar.
Vigdís byrjaði á bekknum í úrslitaleik bikarsins gegn Standard Liege í dag en þarf að bíða eitthvað lengur með að fagna titli.
Abdulai Toloba skoraði sigurmark Standard Liege á 15. mínútu og versnaði ástandið þegar Stefanie Vatafu fékk að líta rauða spjaldið í liði Anderlecht þegar hálftími var eftir.
Bæði liðin skiptust á að koma sér í fær en það var Standard Liege sem tók bikarmeistaratitilinn í tíunda sinn.
Ingibjörg Sigurðardóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir byrjuðu báðar í 1-1 jafntefli Bröndby gegn OB í meistarariðli dönsku úrvalsdeildarinnar.
Bröndby er í 3. sæti með 30 stig, nú fjórum stigum frá Meistaradeildarsæti þegar sex umferðir eru eftir.
Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir kom inn af bekknum hjá FCK í markalausu jafntefli gegn Álaborg í fallriðli dönsku B-deildarinnar. FCK er á toppnum með 7 stig eftir þrjá leiki.
Guðrún Arnardóttir gaf stoðsendingu í 2-1 sigri Rosengård á Kristianstad í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni.
Varnarmaðurinn lagði upp fyrra mark Rosengård fyrir Bea Sprung og gerði Oona Sevenius annað markið í byrjun síðari hálfleiks. Kristianstad minnkaði muninn þegar stundarfjórðungur var til leiksloka en lengra komust gestirnir ekki.
Guðný Árnadóttir, Alexandra Jóhannsdóttir og Katla Tryggvadóttir voru allar í byrjunarliði Kristianstad í leiknum á meðan Ísabella Sara Tryggvadóttir var ónotaður varamaður hjá Rosengård.
Rosengård er í 4. sæti með 9 stig á meðan Kristianstad er í 10. sæti með 3 stig.
Athugasemdir