Gísli var algjör lykilmaður í liði Breiðabliks síðustu ár. Hann var fenginn til sænska félagsins Halmstad í vetur.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, hefur spilað á miðjunni í undanförnum leikjum. Hann getur leyst nokkrar stöður á vellinum en hefur síðustu ár oftast spilað sem hægri bakvörður og leyst það hlutverk vel.
Í síðustu níu leikjum hefur hann verið miðsvæðis og leikið vel. Takturinn í Blikaliðinu, frá og með seinni hálfleiknum gegn Stjörnunni, hefur verið mjög góður og er liðið búið að jafna Víking að stigum á toppi Bestu deildarinnar. Fótbolti.net ræddi við Höskuld um sitt hlutverk.
Í síðustu níu leikjum hefur hann verið miðsvæðis og leikið vel. Takturinn í Blikaliðinu, frá og með seinni hálfleiknum gegn Stjörnunni, hefur verið mjög góður og er liðið búið að jafna Víking að stigum á toppi Bestu deildarinnar. Fótbolti.net ræddi við Höskuld um sitt hlutverk.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 Fram
„Ég hef verið að flakka á milli, verið kannski 25-30% á miðjunni síðustu tímabil, annars verið í bakverðinum. Þetta hefur verið aðeins formfastara núna. Dóri (þjálfari Breiðabliks) talaði um að ég væri með ágætlega mikinn kraft; snerpu, fyrsta skref og smá mótor í mér. Hann talaði um að smá dýnamík hafi farið úr okkur eftir brotthvarf Gísla (Eyjólfssonar). Hann var náttúrulega holdgervingur fyrsta skrefs og mótors á miðjunni hjá okkur. Ég er ekki jafn líkamlegt skrímsli og Gísli er, en það var ákveðið tómarúm sem hann skildi eftir sig sem ég, að einhverju leyti á minn hátt, get svolítið fyllt upp í. Dóri sá kannski fyrir sér að ég gæti verið áhrifameiri fyrir liðið inn á miðjunni; í hjartanu. Það hefur reynst ágætlega," segir Höskuldur.
„Mér finnst geggjað að spila á miðjunni, er vanur því úr yngri flokkum. Þetta er ekkert nýtt fyrir mér og bara ógeðslega gaman."
Með sigrinum gegn Fram á mánudagskvöld komst Breiðablik upp að hlið Víkings á toppi Bestu deildarinnar. Ísak Snær Þorvaldsson hefur spilað vel í síðustu leikjum og Davíð Ingvarsson hefur komið öflugur inn í liðið. Fleiri leikmenn hafa sýnt öfluga frammistöðu, en sýnilegasta breytingin á liði Breiðabliks er hjá þeim tveimur fyrrnefndu og svo tilfærslan á Höskuldi.
„Mér finnst flottur taktur í liðinu, finnst við heilt yfir verið ágætlega stabílir; kannski á pari yfir allt sumarið. Við fundum að við áttum gír inni eins og Ísak hefur talað um undanfarið. Mér finnst við vera finna þennan gír og það á góðum tímapunkti."
Breiðablik spilar með þrjá inn á miðsvæðinu. Höskuldur var beðinn um að reyna að útskýra hvert hlutverk hvers og eins væri. Hvenær vitið þið hvenær þið megið keyra upp í sókn? Er reglan sú að þú bíður fyrir aftan hina?
„Þetta er voða dýnamískt, Dóri leggur áherslu á að við séum að fylla ákveðin pláss á vellinum og það þarf ekkert endilega að þýða að hver maður sé fastur í sínu plássi, heldur að menn séu að fylgjast með og skanna völlinn; séu að sjá til þess að plássin séu fyllt. Ef tveir af þremur á miðjunni skila sér inn á teiginn, þá situr sá þriðji kannski aðeins eftir í 'rest defence'."
Víkingur og Breiðablik eru með átta stiga forskot á Val í toppbaráttunni. Liðin eiga eftir að mætast í úrslitakeppninni. Alls eru átta umferðir eftir.
„Toppbaráttan er drulluspennandi og það verður forvitnilegt að sjá hvernig úrslitakeppnin verður. Það er í fyrsta skipti einhver spenna á toppnum eftir að fyrirkomulaginu var breytt. Það er spenna og eftirvænting," segir fyrirliðinn.
Næsti leikur Breiðabliks er gegn ÍA á útivelli á sunnudag.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 22 | 15 | 4 | 3 | 56 - 23 | +33 | 49 |
2. Breiðablik | 22 | 15 | 4 | 3 | 53 - 28 | +25 | 49 |
3. Valur | 22 | 11 | 5 | 6 | 53 - 33 | +20 | 38 |
4. ÍA | 22 | 10 | 4 | 8 | 41 - 31 | +10 | 34 |
5. Stjarnan | 22 | 10 | 4 | 8 | 40 - 35 | +5 | 34 |
6. FH | 22 | 9 | 6 | 7 | 39 - 38 | +1 | 33 |
7. Fram | 22 | 7 | 6 | 9 | 31 - 32 | -1 | 27 |
8. KA | 22 | 7 | 6 | 9 | 32 - 38 | -6 | 27 |
9. KR | 22 | 5 | 6 | 11 | 35 - 46 | -11 | 21 |
10. HK | 22 | 6 | 2 | 14 | 26 - 56 | -30 | 20 |
11. Vestri | 22 | 4 | 6 | 12 | 22 - 43 | -21 | 18 |
12. Fylkir | 22 | 4 | 5 | 13 | 26 - 51 | -25 | 17 |
Athugasemdir