banner
   mið 21. september 2022 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Ætlaði að vera í eitt ár en er núna byrjaður að lýsa leikjum á Íslandi
Sam Hewson.
Sam Hewson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Þrótti í sumar.
Í leik með Þrótti í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Þróttarar fagna marki en þeir leika í Lengjudeildinni á næstu leiktíð.
Þróttarar fagna marki en þeir leika í Lengjudeildinni á næstu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sam Hewson hefur verið á Íslandi í meira en áratug og hann sér ekki fyrir sér að yfirgefa landið á næstunni.

Hann kom fyrst hingað til lands til þess að spila með Fram en hefur síðan þá leiki með FH, Fylki, Grindavík og núna er hann hjá Þrótti. Hann ætlaði ekki endilega að stoppa hér á landi í ellefu ár, en sú er raunin hjá honum.

Hewson, sem var eitt sinn fyrirliði varaliðs Manchester United, var að enda við að eiga mjög öflugt tímabil þar sem hann var með betri leikmönnum 2. deildar. Miðjumaðurinn skoraði ellefu mörk í 17 leikjum á tímabilinu og hjálpaði Þrótti að komast beint aftur upp í Lengjudeildina.

„Ég er mjög ánægður með það hvernig tímabilið fór. Markmiðið var að komast beint aftur upp og okkur tókst það. Við öll sem erum hjá félaginu megum vera stolt," segir Hewson í samtali við Fótbolta.net en það er ekki mjög algengt að lið fari beint upp eftir að hafa fallið úr Lengjudeildinni.

Hewson segir að það hafi aldrei komið upp að hann myndi yfirgefa Þrótt eftir að liðið féll á síðustu leiktíð. „Ég vissi alltaf að ég vildi vera áfram og hjálpa liðinu að komast upp. Það var það eina rétta í stöðunni þar sem ég var búinn að vera mikið meiddur og ég náði ekki að hjálpa félaginu eins mikið og ég hefði viljað."

Aldrei skorað eins mörg mörk
Hewson hefur á ferli sínum aldrei skorað eins mörg mörk á einu tímabili eins og á því sem var að ljúka. Hann segir margar ástæður fyrir því.

„Blanda af mörgum þáttum. Þjálfarateymið hjálpaði mér mikið með skrokkinn á mér. Ef ég var tæpur eða með eitthvað hnjask þá gat ég tekið mér frí frá fótboltaæfingum og farið í ræktina frekar," segir Hewson.

„Ég spilaði líka mikið sem sóknarsinnaður miðjumaður á þessu tímabili - sem tía - og fékk frjálsa rullu í mínnum leik. Ég var mikið að koma mér inn í teig og á sama tíma var ég ekki mikið að fara niður til að sækja boltann."

Samlandi Hewson, Ian Jeffs, tók við þjálfun Þróttar fyrir tímabilið. Hann er virkilega ánægður með hann sem þjálfara. „Við náum vel saman og hann gefur mér mikið traust. Vonandi er ég búinn að endurgjalda það traust með góðri frammistöðu og mörkum."

Ætlaði bara að vera í eitt ár
Hewson á eitt ár eftir af samningi sínum við Þrótt og hann er spenntur fyrir því að sjá hvernig liðinu mun vegna í Lengjudeildinni á næsta tímabili. Hann er búinn að koma sér vel fyrir á Íslandi og lítur á landið sem sitt annað heimili.

„Ég átti fyrst bara að vera í eitt ár en ég elska landið og fólkið hérna hefur komið svo vel fram við mig. Ég er búinn að búa til nýtt líf hérna og á tvo drengi sem eru íslenskir," segir Hewson.

„Mér hefur aldrei fundist ég þurfa að yfirgefa landið, mér líður mjög vel hérna."

Hewson er búinn að koma sér það vel fyrir að hann er byrjaður að lýsa fótboltaleikjum í íslenska fótboltanum fyrir erlendan markað. Í hverri umferð er valinn leikur í Bestu deild karla sýndur á erlendum markaði og þar er Hewson á hljóðnemanum að lýsa því sem fyrir augum ber.

„Ég fékk þetta starf í gegnum vin minn sem vinnur hjá KSÍ. Það þurfti að fá einhvern enskumælandi einstakling til að lýsa leikjunum og ég hef gaman að því að takast á við nýja hluti. Ég þarf að bæta mig mikið en þetta er búið að vera skemmtilegt til þessa," segir Hewson sem mun taka sitt þrettánda tímabil á Íslandi á næsta ári er hann leikur með Þrótti í Lengjudeildinni.
Ástríðan - 22. umferð - Síðasta yfirferð sumarsins
Athugasemdir
banner