Ólafur Guðmundsson gekk í raðir norska félagsins Álasunds um áramótin eftir þrjú og hálft tímabil hjá FH. Álasund er í næst efstu deild í Noregi en stefnan þar er skýr, það á að komast upp í efstu deild. Hjá Álasundi hittir Óli fyrir Davíð Snæ Jóhannsson en þeir léku saman með FH sumrin 2022 og 2023.
Ólafur er fæddur árið 2002 og á að baki 80 leiki í efstu deild og 21 leik fyrir yngri landsliðin, þar af 13 fyrir U21 landsliðið. Hann er örvfættur miðvörður sem spilaði áður talsvert sem vinstri bakvörður.
Ólafur er fæddur árið 2002 og á að baki 80 leiki í efstu deild og 21 leik fyrir yngri landsliðin, þar af 13 fyrir U21 landsliðið. Hann er örvfættur miðvörður sem spilaði áður talsvert sem vinstri bakvörður.
„Það er mjög góð tilfinning að vera orðinn leikmaður Álasunds. Ég heyrði fyrst frá þeim í byrjun nóvember og var búinn að semja við þá í byrjun janúar þannig að aðdragandinn var ekki svo langur. Það er spennandi verkefni framundan hérna í Álasundi sem heillaði mig mikið. Þjálfarateymið er gott og reynslumikið og þeir eru með skýr markmið um framtíðina," segir Óli.
Alvöru atvinnumannaumhverfi og stærri gluggi til að taka ennþá stærra skref
Hvað hefur Álasund sem FH hefur ekki?
„FH er frábær klúbbur sem gerði mikið fyrir mig og minn feril. Það sem ég fæ út úr því að vera hérna í Noregi en ekki á Íslandi er að hérna er ég kominn í alvöru atvinnumannaumhverfi og mikil tækifæri til staðar til þess að bæta mig sem leikmaður. Einnig tel ég að hér sé stærri gluggi til þess að taka ennþá stærra skref í fótboltanum ef ég spila vel."
„Stór þáttur í að sannfæra mig um að koma til Álasunds"
Fyrrum liðsfélagi þinn, Davíð Snær, er leikmaður Álasunds. Talaðir þú mikið við hann í aðdragandanum?
„Ég og Davíð erum góðir vinir og höfum spilað mikið saman í gegn um tíðina bæði með FH og yngri landsliðum. Hann talaði mjög vel um félagið og var stór þáttur í því að sannfæra mig um að koma til Álasunds. Við erum mikið saman utan æfinga og það hjálpar klárlega að hafa vin sinn með sér hérna úti og auðveldar manni að komast inn í hlutina."
Ekki ólíkt Íslandi
Hvernig er að vera mættur í nýtt land og í nýjan bæ?
„Mér líst mjög vel á Álasund enda bærinn mjög fallegur. Þetta er ekki svo ólíkt því að vera heima á Íslandi. Ég er ekki ennþá búinn að ná tökum á norskunni en er að leggja mig fram um að læra hana. Ég held að hún verði fljót að koma."
Ætlar sér upp í deild þeirra bestu
Hvað langar þig að afreka með liðinu?
„Aðalmarkmiðið er að koma liðinu aftur upp í efstu deild þar sem það á heima. Það er raunhæft markmið vegna þess að hér er sterkur leikmannahópur og gott þjálfarateymi."
Álasund féll úr úrvalsdeildinni 2023 og endaði í 9. sæti B-deildarinnar á síðasta tímabili. Álasund olli vonbrigðum á síðasta tímabili en sýndi á köflum að liðið átti talsvert inni.
Einstakt fólk í kringum FH
Ertu sáttur með það sem þú náðir að gera með FH?
„Ég átti fjögur frábær ár hjá FH. Fólkið í kringum klúbbinn er einstakt og tilbúið að leggja mikið á sig til þess að koma liðinu aftur í fremstu röð. Ég er mjög sáttur við minn tíma og mína frammistöðu hjá félaginu en hefði vilja ná Evrópusæti eins og lagt var upp með."
Getur alltaf leyst bakvörðinn ef þörf er á
Ertu alveg orðinn hafsent eða fórstu með bakvörðinn með þér líka?
„Ég er fyrst og fremst hafsent en ef það er þörf á mér í vinstri bakvörðinn þá get ég alltaf leyst þá stöðu líka," segir Óli.
Athugasemdir