Danska úrvalsdeildarfélagið Midtjylland hefur keypt hinn efnilega Egil Orra Arnarsson frá Þór á Akureyri. Egill varð 16 ára gamall í gær og skrifaði hann þá undir þriggja ára samning við Midtjylland.
Egill Orri mun formlega ganga í raðir Midtjylland þann 1. júlí næstkomandi og byrjar hann í unglingaliðum félagsins.
Egill Orri mun formlega ganga í raðir Midtjylland þann 1. júlí næstkomandi og byrjar hann í unglingaliðum félagsins.
Egill Orri er afar efnilegur vinstri bakvörður sem hefur leikið 17 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Þá lék hann einn leik í Lengjudeildinni með Þór í fyrra og hefur komið við sögu í fjórum leikjum í Lengjubikarnum í vetur.
„Hann er gríðarlega hæfileikaríkur vinstri bakvörður sem er sóknarþenkjandi og leggur mikið á sig," segir Flemming Broe, yfirmaður akademíunnar hjá Midtjylland.
„Eitt eru fótboltahæfileikar en hann er líka með gott viðhorf og sterkan persónuleika," segir hann jafnframt.
Egill hefur heimsótt Midtjylland nokkrum sinnum og hann er heillaður af félaginu. „Félagið er eins og stór fjölskylda og það er aðlaðandi fyrir mig," segir Egill.
Hjá Midtjylland eru fyrir tveir Íslendingar; Sverrir Ingi Ingason og Daníel Freyr Kristjánsson.
Athugasemdir