Mikel Arteta þjálfari Arsenal var ósáttur með frammistöðu sinna manna í 2-2 jafntefli á heimavelli gegn Crystal Palace í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni.
Arteta hvíldi nokkra lykilmenn til að spara þá fyrir stórleikinn í undanúrslitum Meistaradeildarinnar gegn PSG í næstu viku.
„Við vorum langt frá okkar besta í dag, við fundum ekki taktinn í leiknum, við gáfum boltann frá okkur á slæmum stöðum og við vorum seinir í alla bolta. Ég er vonsvikinn," sagði Arteta.
„Leikjaálagið hefur sitt að segja og við erum að glíma við meiðslavandræði í þokkabót sem gera okkur afar erfitt fyrir. Þrátt fyrir þetta allt þá verðum við að spila miklu betur heldur en við gerðum í dag.
„Strákarnir eru kannski með hugann við Meistaradeildina en við ræddum það fyrir leik að einbeita okkur að þessum leik. Við stóðum okkur ekki nógu vel og áttum ekki skilið að sigra. Það er gott fyrir okkur að fá langt frí til næsta leiks. Mikilvægasti leikur tímabilsins er eftir sex daga."
Arsenal sló Real Madrid úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á sannfærandi hátt og ríkir gríðarlega mikil eftirvænting fyrir risaslaginn gegn PSG.
Athugasemdir