Arnar Grétarsson, fyrrum þjálfari KA, fékk aldrei samningstilboð frá félaginu en þetta segir Kristján Óli Sigurðsson, spekingur í Þungavigtinni á samfélagsmiðlum.
KA greindi frá því í kvöld að Arnar Grétarsson væri hættur með liðið og að Hallgrímur Jónasson, aðstoðarmaður Arnars, myndi taka við keflinu, en Hallgrímur skrifaði undir nýjan þriggja ára samning.
Samningur Arnars við KA átti að renna út eftir tímabilið en það stóð til að framlengja samning hans.
Kristján Óli segir að Arnar hafi aldrei fengið samningstilboð frá KA og fór því svo að hann gerði munnlegt samkomulag um að taka við Val, en hann tekur við starfinu af Ólafi Jóhannessyni eftir tímabilið.
Hann skýtur þá á Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, og segir hann hafa gert stór mistök.
„Hann fékk aldrei tilboð frá Blakfélagi Akureyrar. Sem er lögreglumál. Sennilega mesta skita framkvæmdastjóra félagsins frá upphafi og þá er meðtalið framboðið gegn Vöndu. KA sagðist ætla að gera tilboð en það kom aldrei," sagði Kristján Óli á Twitter.
Arnar gerði frábæra hluti með KA. Liðið er í 3. sæti Bestu deildarinnar og komið í meistarariðilinn. Það er með 43 stig, jafnmörg og Víkingur og aðeins átta stigum á eftir toppliði Breiðabliks.
Hann fékk aldrei tilboð frá Blakfélagi Akureyrar. Sem er lögreglumál. Sennilega mesta skita framkvæmdastjóra félagsins frá upphafi og þá er meðtalið framboðið gegn Vöndu. KA sagðist ætla að gera tilboð en það kom aldrei. #Excel
— Kristján Óli Sigurðsson (@kristjanoli) September 23, 2022
Athugasemdir