mið 23. október 2013 15:28
Magnús Már Einarsson
Ingó: Hef alltaf verið fyrsti maður til að gagnrýna þjálfarann
Mynd: Hamar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Hamar
,,Ég er búinn að stefna frekar lengi að því að fara út í þjálfun," sagði Ingólfur Þórarinsson við Fótbolta.net í dag en hann hefur verið ráðinn þjálfari Hamars í 3. deildinni.

,,Þeir auglýstu eftir þjálfara og ég þekkti einn sem stjórnar þarna og hafði samband við hann. Ég sagðist vera með ákveðnar hugmyndir og ég tók fund með þeim. Þeim leist síðan vel á að fá mig sem þjálfara."

,,Allt frá því að ég byrjaði að spila í meistaraflokki hef ég verið fyrsti maður til að gagnrýna þjálfarann þannig að það er kannski ágætt að sýna að maður getur betur," sagði Ingólfur.

Hamar alltaf verið litli bróðir:
Ingólfur hefur lengst af á sínum ferli leikið með nágrönnum Hamars á Selfossi.

,,Hamar hefur alltaf verið litli bróðir Selfoss og fleiri liða á svæðinu. Maður var að keppa við Hamar í gamla daga og það þótti ekki einu sinni merkilegt að vinna liðið þá. Í meistaraflokksbolta er þetta allt öðruvísi. Þeir sem spila fyrir Hamar í hvert skipti eru Hamarsmenn og það er ekkert brjálæðislega erfitt að fá menn til að koma og gera vel fyrir Hamar."

,,Það er heilt bæjarfélag á bakvið liðið. Þetta er ekki lítið lið á stað þar sem annað lið er. Þetta er eina liðið í Hveragerði sem er nokkuð stórt lið og þetta er bær sem ætti að hafa háleit markmið um að hafa gott fótboltalið."


Spennandi fyrir leikmenn sem eru týndir
Ingólfur segir að fyrsta verk verði að mynda leikmannahóp hjá Hamar en fáir leikmenn eru hjá félaginu í dag.

,,Þegar ég skrifa undir eru ekki margir leikmenn í meistaraflokki Hamars. Staðreyndin er sú að það eru ekkert rosalega margir fótboltamenn á meistaraflokksaldri sem eru búsettir í Hveragerði. Þess vegna þarf pottþétt að leita eitthvað á höfuðborgarsvæðið, á Selfoss og í kring," sagði Ingólfur sem hvetur áhugasama leikmenn að skoða þann möguleika að ganga í raðir Hamars.

,,Þetta gæti verið spennandi möguleiki fyrir leikmenn sem eru týndir á sínum ferli. Það er frábær aðstaða í Hveragerði. Það er nánast ekkert lið á Íslandi sem hefur upphitaða höll út af fyrir sig. Í bænum eru margir að berjast um sömu tímana en í Hveragerði er frábær höll til að vinna í. Það er hægt að bæta einstaklinga og þetta er heillandi fyrir mig sem þjálfara að hafa þess aðstöðu fyrir leikmenn."

Ingólfur er 27 ára gamall og hann ætlar sjálfur að spila með Hamarsmönnum í 3. deildinni næsta sumar.

,,Það eru allar líkur á því eins og staðan er núna. Ef ekki þá er ég kominn með draumalið í Hveragerði. Ég ætla að spila af því að ég tel að ég geti styrkt liðið töluvert en vonandi verður liðið það sterkt að ég þurfi ekki að spila alla leiki."

Aldrei skilið markmiðsfundi
Hamar féll úr 2. deildinni í haust en Ingólfur setur stefnuna upp aftur á nýjan leik.

,,Maður hefur farið á fundi hjá mörgum þjálfurum þar sem á að setja markmið og menn skrifa niður á blað. Síðan kemur allt í einu upp að það sé eitthvað markmið sem er annað en að vinna deildina. Ég hef aldrei skilið það. Núna er ég að fara að þjálfa og þá er markmið mitt að vinna hvern einasta leik. Hvort sem það er Lengjubikarleikur gegn FH eða deildarleikur annars staðar."

,,Við reynum að vinna, alveg sama hvert það er. Ef mitt markmið gengur upp í hverjum leik þá verður Hamar Íslandsmeistari eftir 4-5 ár. Við ætlum að reyna að vinna hvern leik en þetta fer svolítið eftir því hvernig gengur að byggja upp hópinn og búa til gott lið,"
sagði Ingólfur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner