Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 23. nóvember 2020 11:20
Magnús Már Einarsson
Jónsi hættur með Tindastól (Staðfest)
Jón Stefán Jónsson.
Jón Stefán Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Jón Stefán Jónsson hefur ákveðið að láta af störfum sem annar af aðalþjálfurum kvennaliðs Tindastóls. Jón Stefán og Guðni Þór Einarsson hafa stýrt Tindastóli saman en liðið fór í fyrsta skipti upp í Peps Max-deildina á dögunum.

„Eftir þrjú ár af ótrúlegum ævintýrum finnst mér kominn tími til að láta staðar numið. Mér finnst mikilvægt að stelpurnar okkar fái þjálfara sem getur verið búsettur á Króknum og þar sem algjörlega útséð er um það v/vinnu minnar þá ákvað ég að setja hagsmuni stelpnanna framar mínum eigin," sagði Jónsi.

„Það er ekkert smá erfitt að skilja við stelpurnar á þessum tímapunkti, bæði vegna þess að ég er sannfærður um að ævintýri þeirra og Tindastóls í efstu deild sé bara rétt að byrja og vegna þess að það hefur verið draumur minn að þjálfa í efstu deild sem aðalþjálfari."

„Ég vil þakka stelpunum sjálfum og öllum sem standa að liðinu, þá sérstaklega okkar frábæru stjórn, kvennaráði og stuðningsmönnum fyrir æðislegan tíma. Guðna þakka ég ómetanlegt samstarf en við höfum bundist órjúfanlegum vinaböndum til lífstíðar."

„Loks vil ég minnast á þá Feykismenn, öflug umfjöllun um liðið okkar hefur svo sannarlega haft mikið að segja. Ég hlakka mikið til að fylgjast með Guðna og stelpunum næsta ár í Pepsi Max deildinni. Sjáumst á vellinum, takk fyrir mig, áfram Tindastóll!“


Í yfirlýsingu frá Tindastóli segir: „Stjórn Tindastóls vill þakka Jónsa fyrir ómetanlegt starf og mikla fórnfýsi fyrir félagið sl. þrjú ár og óskar honum góðs gengis í komandi verkefnum. Leit er hafin af eftirmanni hans og verður vonandi frétta að vænta af þeim málum fljótlega. Framundan er barátta í efstu deild og er vinna við skipulagningu deildarinnar innan sem utan vallar fyrir næsta ár, á þessum erfiðu tímum í rekstarumhverfi íþróttafélaga, þegar hafin."
Athugasemdir
banner
banner