Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings var til viðtals í útvarpsþætti Fótbolta.net í dag eftir að það varð ljóst að hann yrði áfram þjálfari liðsins eftir að félagið hafnaði tilboði sænska liðsins Norrköping í gær.
Arnar er þakklátur Víkingum að leyfa sér að ræða við Norrköping.
„Mér fannst þetta mjög fagmannlegt og mikil reynsla. Greinilega allt topp menn og topp félag og mér fannst við ná vel saman á öllum fundum og ég hef ekkert nema gott um þá að segja," sagði Arnar.
„Ég ætlaði ekki að mæta skælandi inn á skrifstofu til Kára og heimta að fara. Víkingarnir skulda mér ekki neitt, frekar ég sem skulda þeim fyrir að gefa mér þetta tækifæri. Þeir fengu að spila þetta eins og þeir vildu og þeir ákváðu að standa fast á sínu og ég ber virðingu fyrir því og hlakka til næsta tímabils."
Arnar er ekki svekktur þrátt fyrir að þetta hafi verið spennandi tækifæri.
„Fyrir mér var þetta 'win-win'. Auðvitað kítlaði þetta, þetta var spennandi. Ég hef ógeðslega mikinn metnað að fara út og ná sem lengst, það er augljóst að það er einhver stökkpallur og svo mögulega annar stökkpallur áður en þú kemst í stóru deildirnar ef það er draumurinn, sem það er. Það flókið að finna betri stökkpall frá Íslandi en Norrköping," sagði Arnar.
„Ég er alls ekki súr og svekktur. Ég ber mikla virðingu fyrir Víkingum, þeir stóðu fast á sínu. Það var skýrt frá byrjun að þeir skulduðu mér ekki neitt. Hefði ég verið yngri, óreyndari og óþroskaðari þá hefði ég mögulega hent einhverjum diskum."
Hann er spenntur fyrir komandi tímabili með Víkingum.
Ég er mjög hamingjusamur í Víking. Þegar þetta varð ljóst í gær þá renndi maður yfir leikmannahópinn og stuðninginn, hvað allir voru ánægðir þá veit maður hvað ég hef. Ég hlakka til næsta tímabils. Svo eru leikmenn að senda mér skilaboð, þú metur þetta ekki til fjárs, sérstaklega þegar þú ert kominn yfir fimmtugt."
„Ég skil það vel að þetta hafi verið pirrandi fyrir Víkinga sem vilja fá botn í málið sem fyrst. Það má ekki gleyma því að við vorum að tala við leikmenn á þessum tíma, það voru margar spurningar sem leikmenn voru að spurja og við svöruðum því mjög vel og þeir skrifa undir þrátt fyrir þessa óvissu sem er kredit á klúbbinn en fyrir mér persónulega var þetta vel gert hjá Norrköping,"
Hann ítrekaði það að lokum að hann væri mjög spenntur fyrir komandi tímabili enda hefur liðið styrkt sig gríðarlega vel fyrir átökin. Liðið er ríkjandi Íslands og bikarmeistari og ætlar sér að gera betur í Evrópukeppni.