Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 24. júlí 2022 11:10
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Víkingur vann Stjörnuna í úrslitum Gothia Cup
Mynd: Gothia Cup

Víkingur vann Gothia Cup drengja í aldursflokki 16 ára og yngri. Gothia Cup er alþjóðlegt mót sem haldið er í Svíþjóð.


Um var að ræða alíslenskan úrslitaleik þar sem Víkingur tók á móti Stjörnunni. Liðin sóttu bæði mikið í leiknum en tókst ekki að skora svo grípa þurfti til vítaspyrnukeppni.

Þar endaði þetta með því að Víkingur vann 5-3 og titillinn í hús. 167 lið kepptu í þessum aldursflokki svo árangur liðanna er magnaður. Mótið er haldið í Svíþjóð en úrslitaleikurinn fór fram á Ullevi leikvanginum.

Gothia Cup er stærsta mót í heimi sem haldið er fyrir yngri flokka ár hvert. Þar keppa 1.700 lið frá 80 þjóðum í aldursflokkunum 13 - 16 ára drengja og stúlkna.

„Við höfðum betur í öllum leikjum okkar á mótinu. Ég er himinlifandi með að hafa unnið mótið og ég trúi þessu í raun ekki ennþá," sagði Ketill Guðlaugur Ágústsson, fyrirliði Víkings í samtali við heimasíðu mótsins í leikslok.

„Við finnum varla fyrir fótunum okkar við erum svo þreyttir. Ég er gráti næst, þetta er svo frábær tilfinning."

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti Víkingum bikarinn í leikslok. Hann var mættur þangað til að fylgjast með syni sínum keppa á mótinu.


Athugasemdir
banner
banner