lau 24. október 2020 08:00
Brynjar Ingi Erluson
Umboðsmaður Özil hraunar yfir Arteta: Hann er óheiðarlegur
Mesut Özil og Mikel Arteta spiluðu vel saman hjá Arsenal en eru sennilega ekki félagar í dag
Mesut Özil og Mikel Arteta spiluðu vel saman hjá Arsenal en eru sennilega ekki félagar í dag
Mynd: Getty Images
Erkut Sogut, umboðsmaður Mesut Özil, segir að Mikel Arteta, stjóri Arsenal, hafi ekki verið hreinskilinn í svörum er hann var spurður út í fjarveru þýska sóknartengiliðsins.

Özil hefur verið einn besti leikmaður Arsenal frá því hann kom frá Real Madrid árið 2013. Hann spilaði afar vel undir Arsene Wenger en þegar Unai Emery tók við liðinu þá breyttist viðmótið.

Özil var ekki mikill aðdáandi Emery og áttu þeir ekki samleið en þá fór Özil að finna fyrir bekkjarsetu. Mikel Arteta tók við Arsenal í desember á síðasta ári og spilaði Özil framan af en fékk svo ekki leik eftir Covid-pásuna.

Leikmaðurinn hefur þá ekki spilað leik fyrir Arsenal á þessari leiktíð. Hann er ekki í deildar- og Evrópudeildarhópnum. Arteta útskýrði fyrir fjölmiðlum að allir leikmenn hefðu fengið tækifæri til að sanna sig og að þetta væri niðurstaðan.

„Stuðningsmenn Arsenal eiga skilið hreinskilið svar en ekki að Arteta segi bara að hann hafi brugðist Özil. Þú varst ekki að bregðast honum heldur varstu ósanngjarn, óheiðarlegur, sýndir ekkert gagnsæi og gafst honum ekki þá virðingu sem leikmaður sem er samningsbundinn og reynst traustur á skilið," sagði Sogut.

„Það vita það allir að þú hefur ekki komið vel fram við hann og gafst honum aldrei tækifæri á að sanna sig á þessu tímabili. Ef að leikmaður er samningsbundinn þá á hann að eiga þann möguleika á að berjast fyrir sæti sínu. Mesut fékk aldrei það tækifæri," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner