Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   sun 25. febrúar 2024 17:44
Brynjar Ingi Erluson
Liverpool deildabikarmeistari 2024
Virgil van Dijk var hetja Liverpool
Virgil van Dijk var hetja Liverpool
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Chelsea 0 - 1 Liverpool
0-1 Virgil van Dijk ('118 )

Liverpool er deildabikarmeistari árið 2024 eftir að hafa unnið Chelsea, 1-0, í úrslitaleiknum á Wembley í dag. Fyrirliðinn Virgil van Dijk skoraði sigurmarkið með skalla undir lok framlengingar og tryggði Liverpool bikarinn í tíunda sinn í sögunni.

Eftir rólega byrjun var það Luis Díaz sem ógnaði marki en Djordje Petrovic gerði vel í markinu.

Sex mínútum síðar komust Chelsea-menn í dauðafæri. Cole Palmer fékk boltann í teignum og virtist hann ætla að koma sínum mönnum í forystu en Caoimhin Kelleher varði stórkostlega áður en Wataru Endo komst fyrir seinni tilraun Nicolas Jackson.

Á 25. mínútu átti sér stað umdeilt atvik. Moises Caicedo fór í ljóta tæklingu á Ryan Gravenberch, en slapp við spjald á meðan Gravenberch fór af velli á sjúkrabörum.

Chelsea taldi sig hafa tekið forystuna nokkrum mínútum síðar er Raheem Sterling stýrði sendingu Jackson í netið. Markið var dæmt af vegna rangstöðu í aðdraganda marksins. Jackson var rétt fyrir innan er sendingin kom upp hægri vænginn.

Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fyrri hálfleiks átti Cody Gakpo skalla í stöng eftir fyrirgjöf Andy Robertson.

Undir lok hálfleiksins færðist smá hiti í leikinn er Conor Bradley datt ofan á Ben Chilwell. Báðir fengu gula spjaldið fyrir smá kíting en stuttu síðar var flautað til loka fyrri hálfleiks og staðan, þó ótrúlegt megi virðast, markalaus.

Í síðari hálfleiknum fór Chelsea oft illa með góðar stöður. Enzo Fernandez fékk boltann í teig Liverpool og reyndi hælsendingu, í stað þess að einfalda hlutina.

Hálftími var eftir af venjulegum leiktíma er Virgil van Dijk stangaði boltanum í net Chelsea. Aukaspyrnan kom frá vinstri og inn í teiginn á Van Dijk sem hafði betur í baráttunni gegn Chilwell. Markið virtist fullkomlega löglegt, en tæknileg rangstaða var dæmd á Liverpool þar sem Endo kom úr rangstöðunni og steig fyrir Levi Colwill.

Chelsea fékk marga sénsa til að vinna leikinn á síðustu tuttugu mínútunum. Conor Gallagher átti skot í stöng eftir sendingu Cole Palmer og þá komst Gallagher einn í gegn á móti Kelleher, en írski markvörðurinn gerði sig breiðan og varði.

Þegar komið var á fjórðu mínútu uppbótartíma fengu Chelsea-menn tvö góð færi á nokkrum sekúndum en Kelleher varði fyrra með löppunum áður en hann sá við Christopher Nkunku. Markalaust eftir venjulegan leiktíma og þurfti því framlengingu.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, var ekki með marga sterka kosti á bekknum. Hann setti nokkra unga leikmenn inn á og fékk einn þeirra besta færið í framlengingunni.

Jayden Danns átti skalla eftir hornspyrnu en Petrovic varði frábærlega yfir markið. Harvey Elliott kom sér þá í ágæta stöðu nokkrum mínútum síðar en þrumaði boltanum í hliðarnetið.

Noni Madueke fékk fínt færi fyrir Chelsea þegar fimm mínútur voru búnar af síðari hálfleiknum í framlengingu. Hann lét vaða rétt fyrir utan teig, boltinn hafði viðkomu af varnarmanni Liverpool, en Kelleher varði boltann áður en hann handsamaði hann.

Elliott komst næst því að klára þetta fyrir Liverpool. Fimm mínútur voru eftir er hann stangaði fyrirgjöf frá vinstri í átt að marki en boltinn fór af stönginni og út. Boltinn vildi bara ekki inn.

Fyrirliðinn Virgil van Dijk reyndist hetja Liverpool þegar tvær mínútur voru eftir af framlengingunni. Kostas Tsimikas tók hornspyrnu á nærstöngina þar sem Van Dijk var mættur til að setja boltann í netið.

Liverpool hélt út og vann bikarinn í tíunda sinn í sögunni, en ekkert félag hefur unnið oftar. Magnaður árangur hjá Liverpool sem spilaði á mörgum ungum leikmönnum seinni hluta leiksins.

Lið Chelsea: Petrovic (M), Gusto, Disasi, Colwill ('112, Chalobah), Chilwell, Caicedo, Fernandez, Palmer, Gallagher ('97, Madueke), Sterling ('67, Nkunku), Jackson ('90, Mudryk)

Lið Liverpool: Kelleher (M), Bradley ('72, Clark), Konate ('106, Quansah), Van Dijk, Robertson ('87, Tsimikas), Mac Allister ('87. McConnell), Endo, Gravenberch ('28, Gomez), Elliott, Díaz, Gakpo ('87, Danns).
Athugasemdir
banner
banner