Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 25. nóvember 2024 16:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Age Hareide hættur sem landsliðsþjálfari Íslands (Staðfest)
Icelandair
Age Hareide, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands.
Age Hareide, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Norðmaðurinn Age Hareide er hættur sem landsliðsþjálfari Íslands en þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ.

Í tilkynningunni segir: „Age Hareide hefur ákveðið að hætta sem þjálfari A-landsliðs karla og hefur hann því látið af störfum að eigin frumkvæði. Hareide tók við liðinu af Arnari Þór Viðarssyni í apríl 2023 og stýrði því í alls 20 leikjum. KSÍ þakkar Age fyrir hans störf og óskar honum alls hins besta."

Það heyrðust háværar sögur um það í síðasta mánuði að glugginn í nóvember yrði sá síðasti hjá Hareide með landsliðið. Núna hefur það verið staðfest.

Undir hans stjórn var landsliðið hársbreidd frá því að komast á EM í fyrra en það tapaði með naumindum í úrslitaleik gegn Úkraínu.

Liðið endaði svo í þriðja sæti í riðli sínum í Þjóðadeildinni í ár og fer í umspil um að halda sér í B-deild.

Hareide er 71 árs gamall Normaður sem hefur þjálfað síðan 1985. Hann stýrði Molde, Helsingborg, Bröndby, Rosenborg, Örgryte, Viking og Malmö ásamt því að stýra landsliðum Noregs og Danmerkur áður en hann tók við Íslandi.

„Ég vil byrja á því að þakka Åge fyrir hans góðu störf og óska honum velfarnaðar í framtíðinni. Á tíma hans með liðið hafa margir leikmenn tekið stór skref, leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér með landsliðinu. Við munum vanda til verks næstu vikur og mánuði við leit að nýjum þjálfara," segir Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ.

Ísland fer því inn með nýjan þjálfara inn í undankeppni HM á næsta ári. Leit að nýjum þjálfara er hafin.
Athugasemdir
banner
banner