Arsenal gerir tilboð í Gyökeres - Man Utd skipuleggur tilboð í Delap - Spurs býðst Sane
   þri 27. maí 2025 21:38
Brynjar Ingi Erluson
Yfirlýsing Roma: Tveir leikmenn á spítala og Zaniolo augljóslega undir áhrifum
Mynd: EPA
Ítalska félagið Roma hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna hegðunar Nicolo Zaniolo, leikmanns Fiorentina, eftir leik unglinga- og varaliðs félaganna í gær.

Roma sakar Zaniolo um að hafa beitt tvo leikmenn liðsins líkamlegu ofbeldi, en einnig segja vitni að Zaniolo hafi verið í annarlegu ástandi.

Hann er sagður hafa gengið inn í klefa Roma, pissað í aðstöðu þeirra og ögrað leikmönnum áður en hann lagði hendur á þá Mattia Almaviva og Marco Litti.

Zaniolo hefur sjálfur neitað fyrir það að hafa lagt hendur á leikmennina, en viðurkennir að hafa misst stjórn á skapi sínu.

„Kvöldið 26. maí, eftir leik unglinga- og varaliðs Fiorentina og Roma í undanúrslitum á Viola Park, fór Nicolo Zaniolo, leikmaður Fiorentina, án leyfis inn í búningsklefa Roma ásamt félaga sínum, þrátt fyrir að hafa ekki viðeigandi vottun til að fara þangað.“

„Vitni segja að Zaniolo hafi bersýnilega verið undir áhrifum. Hann kastaði af sér þvagi í aðstöðu Roma, ögraði leikmönnum og lagði hendur á Mattia Almaviva og ýtti Marco Litti að bekknum án orðaskipta. Litti fór nýlega í aðgerð á öxl, en báðir leikmenn voru lagðir inn á spítala. Almaviva mun þurfa 10 daga til að jafna sig en Litti 21 dag.“

„AS Roma stendur þétt við bakið á leikmönnum unglingaliðsins og er hneykslað yfir þessari árásargjörnu og óréttlætanlegri hegðun sem sást á Viola Park. Við treystum því að stofnanir munu bregðast við með afgerandi hætti til að tryggja ábyrgðarskyldu og vernda gildi ítalska fótboltans,“
segir í yfirlýsingu Roma.

Zaniolo er 25 ára gamall og eyddi tímabilinu á láni hjá Fiorentina frá Galatasaray. Hann spilaði fimm ár með Roma, en átt erfitt uppdráttar síðustu ár og flakkað á milli félaga.
Athugasemdir
banner
banner