Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   sun 28. mars 2021 18:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar: Þeir voru hungraðari - Jöfn lið og erfiður útileikur
Icelandair
Eiður Smári og Arnar Þór, landsliðsþjálfarar.
Eiður Smári og Arnar Þór, landsliðsþjálfarar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum.
Úr leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við þurfum að leikgreina þennan leik. Við getum lært af andstæðingnum í dag'
'Við þurfum að leikgreina þennan leik. Við getum lært af andstæðingnum í dag'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta var eitthvað sem við vorum búnir að tala um fyrir leik. Þetta er lið með mikið sjálfstraust og þeir hafa verið að ná góðum úrslitum. Þeir eru viljugir, það er mikil hlaupageta í þessu liði og það var það sem skildi að í dag'
'Þetta var eitthvað sem við vorum búnir að tala um fyrir leik. Þetta er lið með mikið sjálfstraust og þeir hafa verið að ná góðum úrslitum. Þeir eru viljugir, það er mikil hlaupageta í þessu liði og það var það sem skildi að í dag'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, var niðurlútur á blaðamannafundi eftir tap gegn Armeníu á útivelli í öðrum leik Íslands í undankeppni HM 2022.

Ísland er með núll stig eftir tvo leiki í undankeppninni og útlitið er ekki gott eins og staðan er núna.

„Raunhæfur möguleiki að komast áfram? Já," sagði Arnar á blaðamannafundinum.

„Ég held að þessi riðill sé mikið jafnari en margir halda. Að mínu mati er Þýskaland með langbesta liðið í riðlinum. Það koma síðan fjögur lið þar á eftir sem geta tekið stig af hvort öðru, og eru með erfiða heimavelli eins og hér í Armeníu. Já, það eru að sjálfsögðu enn möguleikar í riðlinum."

„Við verðum að passa okkur á því að byrja ekki að reikna of mikið. Það er yfirleitt þannig að það er hægt að tapa tveimur útileikjum í svona riðli og ná í til dæmis annað sæti. Eina sem skiptir máli núna er að leikgreina leikinn í dag og undirbúa okkur fyrir næsta leik. Það er mikilvægt að vera tilbúnir í leikinn við Liechtenstein því það er það eina sem er í boði núna, það er næsti leikur. Því miður er ekki hægt að breyta úrslitunum í dag."

„Þessi leikur snýst aðallega um það að þetta er mjög lokaður leikur; í fyrri hálfleik eru nánast engin færi. Þeir áttu tvö eða þrjú skot fyrir utan teig og við fáum besta færi fyrri hálfleiks eftir horn þegar Ari á skot sem fer í varnarmann og rétt fram hjá. Að öðru leyti voru engin færi. Þessi leikur spilast þannig að hann fellur með því liði sem nær að skapa sér fyrsta færið eða fyrsta markið, þeir gera það upp úr hálffæri."

„Ég hef engar áhyggjur af því að við getum ekki skorað mörk. Við fáum færi til að jafna og heppnin þarf að vera með okkur. Það var erfitt í dag og þetta var leikur sem var mjög lokaður og jafn. Þetta var annað hvort að fara að falla öðru megin með fyrsta markinu eða í jafntefli."

Hann segir að fyrra markið hafi verið það sem hafi skipt máli varðandi úrslit þessa leiks.

„Fyrra markið er markið sem skilur að. Eftir það erum við að reyna að ýta upp, pressa og reyna að búa til færi. Það gengur ágætlega fyrstu tíu mínúturnar eftir markið. Þar á eftir náðu þeir fleiri skyndisóknum og voru hættulegri. Markið sem þeir skora, fyrra markið, er ósköp einfalt. Þeir losa frá - okkar séð - hægri til vinstri og hægri kantmaðurinn þeirra kemur á Ara og Albert inn á við og setur hann í fjærhornið. Þetta er vel gert hjá honum, þetta er hálf færi. Þetta er einstaklingsframtak hjá þeirra kantmanni og það eru hlutir sem gerast í fótbolta og fellur á móti okkur í dag."

„Ég held að Armenía hafi verið aðeins hungraðari, verið aðeins viljugri. Þeir voru skarpari í sínum einvígum. Við vorum að vinna ágætlega mikið af einvígum en annar boltinn var oft þeirra. Það sýnir hungrið í þeirra leik," sagði Arnar og bætti við:

„Þetta var eitthvað sem við vorum búnir að tala um fyrir leik. Þetta er lið með mikið sjálfstraust og þeir hafa verið að ná góðum úrslitum. Þeir eru viljugir, það er mikil hlaupageta í þessu liði og það var það sem skildi að í dag. Við vorum ekki að fá mörg færi á okkur framan af en þeir voru aðeins hungraðari. Það er eðlilegt að mörgu leyti, þeir eru á heimavelli og það eru áhorfendur að ýta þeim áfram. Þetta eru jöfn lið og erfiður útileikur."

„Ég held að leikplanið hafi gengið ágætlega upp og sérstaklega fram að markinu. Þeir voru ekki að skapa sér nein færi. Það var leikplanið að halda leiknum lokuðum þannig að við gætum síðustu 25-30 mínúturnar sett Kolbein inn á og þrýst aðeins meiri sóknarleik. Leikplanið gekk ágætlega upp, varnarlega í fyrri hálfleik en við hefðum getað skapað fleiri færi. Það voru möguleikar í fyrri hálfleik en síðasta sendingin var ekki góð. Þetta 'momentum' kom aldrei í dag, það var þeirra megin. Leikplanið var eins og við settum það upp og ég var ánægður með það, en við hefðum viljað framkvæma ákveðna hluti aðeins betur.

„Öll töp eru slæm. Við ætluðum að koma hingað og ná í stig, eitt eða þrjú. Við hefðum verið ágætlega sáttir með eitt, því miður gekk það ekki eftir. Það eru hlutir sem við verðum að laga. Við gerum okkur grein fyrir því. Það er voðalega erfitt fyrir okkur að reikna núna. Í svona undankeppni eru ákveðin bónusstig í boði og útivellir eru alltaf erfiðir. Ef þú nærð í stig þar, það eru bónusstig. Það tókst ekki í dag en við eigum útileiki eftir á móti Liechtenstein, Rúmeníu og Norður-Makedóníu. Þar getum við halað inn þessum bónusstigum til baka. Það eru möguleikar enn í riðlinum en það er aldrei gott að tapa."

Næsti leikur er við Liechtenstein á miðvikudag.

„Við þurfum að leikgreina þennan leik. Við getum lært af andstæðingnum í dag. Við getum lært af þeirra ákefð. Ég er alls ekki að segja að okkar ákefð hafi verið ekki til staðar. Þeir voru með 1-2 prósent meira í sinni vinnu og nálgun á einvígum, öðrum boltum og öðru. Við þurfum að taka hvíldina núna. Það er langt ferðalag framundan frá Armeníu til Liechtenstein. Við leikgreinum þennan leik, kíkjum á andstæðinginn, hvíld og sjáum til þess að allir sem geti spilað á móti Liechtenstein verði eins frískir og mögulegt er."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner