Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 28. apríl 2021 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 8. sæti
8. sæti: Þór Akureyri
Lengjudeildin
Þór er spáð áttunda sæti.
Þór er spáð áttunda sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Freyr Hjaltalín (til vinstri) tók við þjálfun Þórs eftir síðasta tímabil.
Orri Freyr Hjaltalín (til vinstri) tók við þjálfun Þórs eftir síðasta tímabil.
Mynd: Þór
Montejo er mikilvægur.
Montejo er mikilvægur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarki Þór Viðarsson.
Bjarki Þór Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvar endar Þór í sumar?
Hvar endar Þór í sumar?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. Þór, 116 stig
9. Afturelding, 67 stig
10. Selfoss, 63 stig
11. Þróttur R, 55 stig
12. Víkingur Ó, 43 stig

8. Þór
Það er örugglega langt síðan Þór Akureyri var spáð svona neðarlega og þetta er spá sem Þórsarar kunna örugglega ekkert við. Þórsarar töpuðu öllum sínum leikjum í Lengjubikarnum og enduðu með markatöluna 3:19. Það er spurning hvernig þeir koma inn í tímabilið en núna þurfa þeir að vera með sokkana á lofti.

Þjálfarinn: Orri Freyr Hjaltalín var ráðinn til starfa hjá Þór í nóvember síðastliðnum og skrifaði undir þriggja ára samning. Orri, sem er fertugur, lék með Þór upp yngri flokkana og lengi í meistaraflokki. Hann lék einnig með Grindavík og Magna ásamt því að hafa leikið með GG í 4. deildinni sumrin 2018 og 2019. Eftir það lagði hann skóna á hilluna. Hann er ekki með mikla reynslu sem aðalþjálfari í meistaraflokki en hefur mikla reynslu af yngri flokka þjálfun.

Álit sérfræðings
Eiður Ben Eiríksson, Rafn Markús Vilbergsson og Úlfur Blandon eru sérfræðingar Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina í ár. Úlfur gefur sitt álit á liði Þórsara.

„Það er erfitt að staðsetja lið Þórs í ár bæði varðandi leikmannahópinn og þjálfarateymið. Leikmannahópurinn hefur tekið breytingum frá því í fyrra, til að mynda er fyrrum fyrirliði liðsins, Sveinn Elías, horfinn á braut en hann var einn af máttarstólpum liðsins á síðsta ári. Ekki nóg með það að liðið missti fyrirliða sinn þá er besti leikmaður Þórs á síðasta tímabili, Loftur Páll Eiríksson, farinn en hann ákvað að söðla um og máta sig við lið Leiknis í Breiðholti. Kjarninn í liðinu hefur breyst töluvert undanfarin tvö ár þar sem glerharðir Þórsarar hafa lagt skóna á hilluna, prófað sig erlendis eða farið og spilað hjá öðrum liðum innanlands. Þjálfarateymið er nýtt og ekki með mikla þjálfarareynslu á bakinu en hafa þó hjartað á réttum stað og eru tilbúnir að ganga alla leið fyrir félagið. Síðasta tímabil var frekar mikil vonbrigði fyrir Þórsara sem voru að gera sér væntingar um að fara upp um deild eins og mörg önnur lið á síðasta ári."

„Það fyrsta sem Þórs liðið þarf að bæta í sínum leik frá síðasta ári er að sýna meiri stöðugleika og ná í fleiri sigra á heimavelli. Því miður hefur heimavöllurinn ekki gefið liðinu nægilega mikið undanfarin ár, en liðið var með svipaðan árangur á útivelli og heimavelli í fyrra sem er alls ekki ásættanlegt. Þórsliðið hefur haft það orð á sér í gegnum tíðina að vera harðir í horn að taka, fylgnir sér og tilbúnir í átök í hverjum einasta leik en því miður hefur það dalað. Á árum áður kveið hverjum einasta leikmanni fyrir því að fara norður og spila við lið Þórs í þorpinu sú er ekki raunin í dag."

„Það er alveg ljóst að það mun mikið mæða á Alvaro Montejo, Bjarka Þór Viðarssyni og Orra Sigurjóns og bíður þeirra áhugavert sumar. Þórsarar hafa ekki verið með yfirlýsingar fyrir þetta tímabil og mögulegt að menn líti svo á að sumarið í ár sé fyrsti hluti í uppbyggingarfasa áður en farið verður í djarfar yfirlýsingar um að gera skuli atlögu að sæti í Pepsi Max-deildinni."

Lykilmenn: Alvaro Montejo, Bjarki Þór Viðarsson og Orri Sigurjónsson

Fylgist með: Elmar Þór Jónsson
Hrikalega skemmtilegur vinstri bakvörður sem hefur átt fast sæti í yngri landsliðum Íslands. Elmar var valinn efnilegasti leikmaður Þórs á síðasta ári. Traustur leikmaður sem hefur sýnt mikinn stöðugleika undanfarin ár og á bara eftir að verða betri ef hann heldur rétt á spilunum.

Komnir:
Liban Abdulahi frá Hollandi
Petar Planic frá Maldaví

Farnir:
Emanuel Nikpalj
Jakob Franz Pálsson til Venezia á Ítalíu (Á láni)
Jónas Björgvin Sigurbergsson
Izaro Abella Sanchez í Leikni F.
Kaelon Fox til Bandaríkjanna
Loftur Páll Eiríksson í Leikni R.
Sveinn Elías Jónsson hættur
Sveinn Óli Birgisson

Fyrstu leikir Þórs:
7. maí gegn Gróttu á útivelli
13. maí gegn Grindavík á heimavelli
21. maí gegn Fram á útivelli
Athugasemdir
banner
banner