Framtíð Hannesar Þórs Halldórssonar hjá Val er mikið á milli tannanna á fólki eftir að greint var frá því að Valur hefði náð samkomulagi við Guy Smit, markvörð Leiknis, um að ganga í raðir félagsins eftir tímabilið.
Það vakti athygli í lokaumferðinni þegar Hannes var á bekknum gegn Fylki og einnig þegar ákveðið var að Sveinn Sigurður Jóhannesson spilaði gegn Vestra í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
Það vakti athygli í lokaumferðinni þegar Hannes var á bekknum gegn Fylki og einnig þegar ákveðið var að Sveinn Sigurður Jóhannesson spilaði gegn Vestra í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
„Maður heyrir að Hannes, skiljanlega, er ekkert dansandi kátur með þessa þróun [að vera á bekknum og búið að semja við nýjan markvörð]," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu.
„Maður er að heyra alls konar, ég veit ekki hversu mikið slúður við förum fram með. Ég heyrði að hann og Heimir [Guðjónsson, þjálfari Vals] væru ekki á jólakortalistanum hjá hvorum öðrum og þetta væri mögulega bara búið. Mér fannst það skrítnasta varamarkvarðarráðning í sögunni að fá Guy Smit því hann er alltof góður til að vera varamarkvörður. Ég get ekki séð annað í stöðunni en að Hannes sé að fara," sagði Tómas Þór Þórðarson.
„Ég uppifi það ekki þannig. Ég get vel ímyndað mér að Hannes sé mjög fúll með þetta. Mér finnst eðlilegt að Svenni hafi spilað lokaleikinn en kannski óeðlilegra að hann spilaði bikarleikinn. Ég reikna með því að Hannes verði áfram. Hann á eitt ár eftir af samningi," sagði Sverrir Mar Smárason.
Þeir félagar ræddu um möguleika á samkeppni milli Guy Smit og Hannesar. Þá var einnig til umræðu að Valur myndi nýta sér uppsagnarákvæði í samningi Hannesar.
„Guy Smit er það stór fengur að þetta kallar á fabúleringar," sagði Tómas.
Segir engar viðræður vera í gangi
Fréttaritari ræddi stuttlega við Hannes í dag. Hvernig er staðan á þínum málum?
„Ég get ekki gefið neitt upp með það, það er nú bara þannig," sagði Hannes.
Eru einhverjar viðræður í gangi? „Nei, það eru engar og næst ekki í neinn niðri á Hlíðarenda."
Hannes var spurður að því hvað hefði komið upp í hugann þegar hann sá að Guy Smit væri á leið í Val. Fyrrum landsliðsmarkvörðurinn sagðist ætla að svara því einhvern tímann seinna.
Athugasemdir