Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fim 28. nóvember 2019 15:35
Magnús Már Einarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Af hverju fór allt í rugl hjá Östersund?
Magnús Már Einarsson
Úr leik Östersund og Arsenal í febrúar 2018.
Úr leik Östersund og Arsenal í febrúar 2018.
Mynd: Getty Images
Lið Östersund eftir leikinn á Emirates leikvanginum.
Lið Östersund eftir leikinn á Emirates leikvanginum.
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn Östersund.
Stuðningsmenn Östersund.
Mynd: Getty Images
Saman Ghoddos í leik með Östersund.
Saman Ghoddos í leik með Östersund.
Mynd: Getty Images
Í vikunni bárust fréttir frá Svíþjóð þess efnis að Östersund hefði verið neitað um keppnisleyfi í sænsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili þar sem fjármál félagsins eru í ólestri. Tæplega tvö ár eru síðan Östersund fór alla leið í 32-liða úrslit í Evrópudeildinni þar sem liðið spilaði við Arsenal.

Östersund var mikið í fréttunum í kringum þátttöku þess í Evrópudeildinni. Graham Potter, núverandi stjóri Brighton, kom liðinu úr sænsku C-deildinni árið 2012 og svo alla leið upp í úrvalsdeild árið 2015. Bikarmeistaratitill árið 2017 gaf Östersund þátttökurétt í Evrópudeildinni 2017/2018. Þar vann Östersund lið eins og Athletic Bilbao frá Spáni og Hertha Berlin frá Þýskalandi áður en Arsenal stöðvaði ævintýrið í 32-liða úrslitum.

Félagið fór fram úr sér
Östersund endaði í 5. sæti í sænsku úrvalsdeildinni 2017 og 6. sæti árið eftir. Í ár fóru fjárhagsvandamál að setja strik í reikninginn en niðurstaðan varð 12. sæti af 16 liðum eftir harða fallbaráttu. Hins vegar er útlit fyrir að Östersund verði dæmt niður um deild vegna fjárhagsvandamála. Félagið fékk mikinn pening fyrir velgengina í Evrópudeildinni en ýmislegt hefur farið úrskeiðis síðan þá.

„Þeir fengu mikinn pening úr Evrópudeildinni og fyrir félagaskipti en þeir borguðu líka mikið af pening í bónusa fyrir velgengnina í Evrópudeildinni," sagði Martin Petersson, íþróttafréttamaður hjá Fotbollskanalen í Svíþjóð, við Fótbolta.net.

„Þeir borguðu líka háar fjárhæðir til umboðsmanna og fyrrum félaga í tengslum við kaup og sölur. Þeir borguðu líka Daniel Kindberg (fyrrum formanni Östersund) til baka eftir að hann hafði lánað félaginu háa fjárhæð. Síðan eyddi félagið mun meiri pening en vanalega í hópinn = hærri laun og upphæðir sem borga þurfti við undirskrift."

„Heilt yfir var alltof mikill kostnaður hjá félaginu samanborið við innkomu, ef þú tekur frá innkomuna í Evrópudeildinni og fyrir sölur á leikmönnum."

„Þetta er klassísk saga um félag sem nær að vaxa mikið á nokkrum árum en hefur ekki nægilega góðan grunn til að byggja á."


Há sekt frá FIFA
Samtals fékk Östersund á bilinu 13-14 milljónir evra fyrir þátttökuna í Evrópudeildinni sem og fyrir sölur á leikmönnum á árunum 2017-2018. Hvert fór þessi peningur?

Félagið eyddi 1,3 milljón evra í kostnað við Evrópudeildina (ferðalög, hótel og annað). Leikmenn og þjálfarar fengu 1,8 milljón evra í bónusa fyrir Evrópudeildina. 1,8 milljón evra fór í laun til umboðsmanna. Síðasta vetur eyddi félagið 1,7 milljón evra í nýja leikmenn og lánið sem Kindberg fékk til baka hljóðaði upp á 1,8 milljón evra. 400 þúsund evrur fóru einnig í enduruppbyggingu á heimavelli félagsins. Fyrir utan allar þessar upphæðir var rekstur félagsins svo hár tímabilið 2017/2018 að nota þurfti 2,3 milljónir evra af Evrópudeildar peningunum til að loka rekstrarárinu.

Östersund hefur að auki lent í alls konar vandræðum sem tengjast peningamálum. Félagið á meðal annars yfir höfði sér fjögurra milljóna evra sekt vegna Saman Ghoddos, sóknarmanns frá Íran. Ghoddos sló í gegn hjá Östersund á árunum 2016 til 2018 og skoraði mikið.

Spænska félagið Huesca hafði samið um að kaupa hann en sumarið 2018 fór hann til Amiens í Frakklandi. Huesca hafði skriflegt samkomulag við Ghoddos og Östersund og fór með málið fyrir FIFA. Östersund þarf að greiða 4 milljóna evra sekt fyrir vikið en félagið hefur áfrýjað málinu til íþróttadómstóls Evrópu og bíður nú eftir úrskurði þaðan. Ghoddos hefur sjálfur verið í leikbanni undanfarna mánuði vegna málsins en hann var dæmdur í fjögurra mánaða bann.

Svíar vorkenna Östersund ekki
Daniel Kindberg, fyrrum formaður Östersund, beitti brögðum til að koma peningum inn í félagið en hann var í haust dæmdur í þriggja ára fangelsi. Kindberg hefur áfrýjað dómnum en Östersund fær litla vorkunn í Svíþjóð vegna vandræða sinna.

„Flestir stuðningsmenn í Svíþjóð, fyrir utan stuðningsmenn Östersund, eru hlæjandi og mjög glaðir. Þeir hata félagið út af glæpunum sem Daniel Kindberg hefur framið, miðað við það sem hefur komið fram hjá dómstólum," sagði Petersson.

„Kindberg fann leið til að afla Östersund tekna upp á meira en tíu milljónir sænskra króna með því að nota fyrirtæki sem hann vann fyrir og fyrirtæki sem vinur hans á. Þeir gáfu út falska reikninga sem urðu til þess að Östersund fékk peningana. Ég myndi því segja að flestir stuðningsmenn í Svíþjóð hugsi núna að þetta sé það sem Östersund verðskuldar."

Stuðningsmenn Östersund bíða og vonast eftir að áfrýjun félagsins gangi upp og keppnisleyfi fáist í sænsku úrvalsdeildinni á næsta ári. Ef það gengur ekki þá er þetta stutta ævintýri Östersund í sænsku úrvalsdeildinni verið á enda.
Athugasemdir
banner
banner
banner