Sparkspekingurinn Jamie Redknapp var í settinu á Sky Sports yfir leik Brentford og Manchester United en hann átti erfitt með að skilja það sem var í gangi inn á vellinum.
Man Utd sýndi mikla baráttu og ástríðu í 4-3 bikarsigrinum á Liverpool fyrir landsleikjatörnina en í kvöld var allt annað að sjá liðið.
Brentford var yfir á öllum sviðum leiksins og í raun óheppið að hafa ekki unnið leikinn.
„Ten Hag sagði í viðtali að Brentford vildi þetta meira og það er synd í hvert einasta skipti sem maður heyrir stjóra segja þetta. Hann segir leika 'okkar leikstíl', en ég veit ekki hvaða leikstíl liðið spilar.“
„Ég veit ekki hvort þeir spila úr vörninni. Þeir reyna það stundum og spila boltanum á markvörðinn en hann þrumar boltanum bara fram völlinn. Ég veit að þeir eru ekki með fjögurra manna vörnina sem þeir vildu (vegna meiðsla), en ég bara hreinlega veit ekki hver leikstill liðsins er.“
„Brentford fékk svo mörg tækifæri í dag og voru betri á öllum sviðum fótboltans. Það er mikil umræða um stjórann, hvort hann verði áfram á næsta tímabili. Ég held að það verði leikmennirnir sem ákveða framtíð hans, svona miðað við hvernig þeir eru að spila núna.
„Það er svona frammistaða sem kostar stjórann starfið. Það vantaði framlagið og ef þeir eru virkilega hrifnir af stjóranum og vilja spila fyrir hann þá munu þeir leggja sig fram. Ég sá svo marga leikmenn á röltinu og eins og þeim væri alveg sama. Þeir eru að spila fyrir eitt stærsta félag heims,“ sagði Redknapp.
Athugasemdir