Man Utd í viðræðum um Donnarumma - Rodrigo Muniz er orðaður við Newcastle
   mið 30. júlí 2025 20:29
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Blikar úr leik - Fara á kunnuglegar slóðir
Blikar eru úr leik í Meistaradeildinni
Blikar eru úr leik í Meistaradeildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Gottskálk byrjaði hjá Lech Poznan
Gísli Gottskálk byrjaði hjá Lech Poznan
Mynd: EPA
Breiðablik 0 - 1 Lech Poznan
0-1 Mikael Ishak ('28 )
Lestu um leikinn

Íslandsmeistarar Breiðabliks töpuðu fyrir Lech Poznan, 1-0, í seinni leik liðanna í 2. umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á Kópavogsvelli í kvöld og er því ljóst að Blika eru á leið í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Blikar fengu 7-1 skell í fyrri leiknum og var þessi leikur því aðeins formsatriði fyrir pólsku gestina.

Gísli Gottskálk Þórðarson fékk tækifærið í byrjunarliði Poznan og sérstakt augnablik fyrir hann að mæta uppeldisfélagi sínu.

Blikar litu mjög vel út í byrjun leiks. Aron Bjarnason átti svakalegan sprett sem endaði með skoti í stöngina og þá átti Kristófer Ingi Kristinsson skalla sem markvörður Poznan varði.

Gestirnir unnu sig betur inn í leikinn og gerðu eina mark leiksins á 28. mínútu. Það var Mikael Ishak, maðurinn sem skoraði þrennu í fyrri leiknum, er hann nýtti sér misheppnaða hreinsun Viktors Karls Einarssonar.

Breiðablik fékk fullt af sénsum til þess að skora í leiknum en nýttu illa.

Undir lok leiks var Tobias Thomsen hársbreidd frá því að skora fyrir Blika er Ágúst Orri Þorsteinsson kom boltanum fyrir en Tobias rétt missti af boltanum og rann færið út í sandinn.

Lokatölur 1-0 fyrir Lech Poznan sem vinnur einvígið samanlagt, 8-1, og fer áfram í 3. umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar gegn Rauðu stjörnunni á meðan Blikar fara í 3. umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Andstæðingur Blika er kunnuglegur en það er Zrinjski Mostar frá Bosníu og Hersegóvínu. Liðin áttust við í forkeppni Sambandsdeildarinnar árið 2023. Mostar vann þá 6-2 sigur á heimavelli en Blikar unnu seinni leikinn á Kópavogsvelli, 1-0.

Breiðablik mætir Mostar 7. og 14. ágúst.
Athugasemdir
banner