De Gea, Ramsdale, Guirassy, Nketiah, Varane, Maignan og fleiri í pakka dagsins
banner
   lau 30. september 2023 19:28
Brynjar Ingi Erluson
Klopp: Sturlaðar ákvarðanir
Jürgen Klopp
Jürgen Klopp
Mynd: Getty Images
Diogo Jota sá rautt
Diogo Jota sá rautt
Mynd: Getty Images
Jürgen Klopp. stjóri Liverpool, var enn að átta sig á því sem hafði gerst í 2-1 tapi liðsins gegn Tottenham í Lundúnum, en hann segir margar ákvarðanir dómara leiksins algerlega sturlaðar.

Liverpool spilaði á níu mönnum síðasta hálftímann eða svo eftir að Curtis Jones og Diogo Jota sáu rautt.

Jones var rekinn af velli fyrir tæklingu á Yves Bissouma í fyrri hálfleik og Jota var einnig sendur af velli fyrir að brjóta á Bissouma, en það er fyrra gula spjaldið sem hann fékk stuttu áður sem var helst til umræðu, enda felldi Destiny Udogie sjálfan sig.

Liverpool var nálægt því að halda út en undir lokin kom Joel Matip boltanum í eigið net og þar við sat.

„Ég hef aldrei verið jafn stoltur af liði mínu eins og í dag, en sömuleiðis aldrei séð jafn ósanngjarnar kringumstæður eins og í þessum leik. Þetta voru bilaðar ákvarðanir,“ sagði Klopp eftir leikinn.

„Við skoruðum sjálfsmark og það er erfitt að kyngja því, en ég er stoltur. Fyrra rauða spjaldið, þá stígur Curtis á boltann og fer síðan yfir hann. Þetta var ekki slæm tækling.“

„Þetta lítur öðruvísi út þegar þetta er sýnt hægt. Hann fer af fullum krafti ofan á boltann og fer rétt yfir hann. Það er óheppni.“

„Fyrra gula spjaldið á Jota var ekki gult. Síðan fær hann annað gula spjaldið og að verjast með átta útileikmenn er snúið.“

„Þú vilt byggja og þá þarftu leikmenn með þetta hugarfar og ég sá þá í dag. Þeir börðust og þetta var ansi sérstakt kvöld.“


Klopp segir auðvitað leiðinlegt fyrir Matip að gera þetta sjálfsmark, en hafði ekkert út á spilamennsku hans að setja. Hann hafi einfaldlega verið óheppinn.

„Þetta leit fyrir mér út eins og örlög eða einhver þurfti að setja fótinn í þetta. Joel varðist frábærlega vel í dag. Hann setur fótinn út og boltinn fer í netið. Það eru til verri hlutir í lífinu, það er bara þannig.“

Mark var dæmt af Luis Díaz í fyrri hálfleiknum er Mohamed Salah kom boltanum inn á Díaz sem skoraði, en VAR tók sér fimm sekúndur í að dæma það af Liverpool. Klopp segir þetta einfaldlega rangan dóm og að línurnar hafi verið teiknaðar vitlaust upp.

„Rangstöðumarkið. Þetta er ekki rangstaða þegar þú horfir á þetta, þeir teiknuðu línurnar vitlaust. Boltinn er á milli fóta hjá Salah og þeir teiknuðu línurnar vitlaust og dæmdu ekki augnablikið þegar hann sendi boltann. Það er ógeðslega erfitt að eiga við þetta,“ sagði Klopp.
Athugasemdir
banner
banner