Real Madrid setur sig í samband við Dalot - Gyökeres til United eða City - Salah til í eins árs samning - Rooney reynir að bjarga starfinu
   mið 11. maí 2011 23:08
Elvar Geir Magnússon
Umfjöllun: Blikar komust á bragðið gegn tíu Grindvíkingum
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Breiðablik 2 - 1 Grindavík
0-1 Paul McShane, Grindavík ('14)
1-1 Kristinn Steindórsson, Breiðablik ('77)
2-1 Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Breiðablik ('82)
Rautt spjald: Guðmundur Andri Bjarnason (Grindavík), (21)

Þungu fargi er létt af Ólafi Kristjánssyni og lærisveinum hans sem náðu sér í sín fyrstu stig í sumar þegar þeir lögðu Grindavík á Kópavogsvelli. Þetta var fyllilega verðskuldaður sigur Blika sem gekk þó erfiðlega að brjóta ísinn.

Það ber þó að hrósa Grindvíkingum fyrir baráttuanda í leiknum en í lokin voru þeir orðnir ansi bensínlitlir einum manni færri og heimamenn kláruðu leikinn.

Paul McShane kom Grindavík yfir með skalla í fjærhornið eftir fyrirgjöf frá Magnúsi Björgvinssyni á 14. mínútu. Liðið var fyrir áfalli sjö mínútum síðar en þá var Andri Rafn Yeoman að sleppa í gegn þegar Guðmundur Andri Bjarnason braut á honum, aukaspyrna dæmd og Guðmundur Andri fékk að líta rauða spjaldið.

Út hálfleikinn voru Blikarnir með boltann en gekk erfiðlega að skapa sér alvöru færi. Ólafur þjálfari var duglegur að færa menn í nýjar stöður og breyta liðinu til. Staðan 0-1 í hálfleik en í hálfleiknum tók Ólafur fyrirliðann Kára Ársælsson af velli. Finnur Orri Margeirsson færðist í hjarta varnarinnar og Viktor Unnar Illugason kom inn til að bæta biti í sóknarleikinn.

Áfram héldu Blikar að stjórna ferðinni en Grindvíkingar börðust líkt og grenjandi ljón og hefðu með smá heppni getað skorað annað mark þegar Robbie Winters komst í gott færi en skot hans fór naumlega framhjá.

Bæði mörk Blika komu eftir föst leikatriði. Krisitnn Steindórsson jafnaði á 77. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir að skalli Elfars Freys Helgasonar fór í slánna. Fimm mínútum síðar náði svo Arnór Sveinn Aðalsteinsson að skora sigurmarkið þegar hann skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

Grindvíkingar voru ansi nálægt því að stela stigi í lokin þegar Jóhann Helgason átti skalla sem var bjargað á marklínu. Það voru þó Íslandsmeistararnir sem fögnuðu sigrinum og tryggðu sér þrjú mikilvæg stig.

Framan af leik héldu viðvörunarbjöllur í varnarleik liðsins áfram að hringja en eftir að Grindvíkingar misstu mann af velli léttist pressan á vörninni. Gulklæddir gestirnir börðust gríðarlega vel og ber að hrósa liðinu í þessari baráttu við heimamenn. Alexander Magnússon fær titilinn maður leiksins en baráttugleði hans var til fyrirmyndar, það má eiginlega segja að hann hafi strax sent skilaboð þegar hann mætti út á völlinn með sárabindi vafið um hausinn.

Bæði þessi lið eru með þrjú stig að loknum þremur umferðum.

Breiðablik: Ingvar Kale (m); Finnur Orri Margeirsson, Elfar Freyr Helgason, Kári Ársælsson (46 Viktor Unnar Illugason), Kristinn Steindórsson, Rafn Andri Haraldsson, Guðmundur Kristjánsson, Kristinn Jónsson (81 Arnar Már Björgvinsson), Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Tómas Óli Garðarsson, Andri Rafn Yeoman (72 Olgeir Sigurgeirsson).

Grindavík: Jack Giddens (m); Jamie McCunnie, Ray Anthony Jónsson, Paul McShane (81 Bogi Rafn Einarsson), Jóhann Helgason, Orri Hjaltalín, Ólafur Örn Bjarnason, Magnús Björgvinsson (66 Matthías Örn Friðriksson), Guðmundur Andri Bjarnason, Robert Winters (72 Michel Pospisil), Alexander Magnússon.

Maður leiksins: Alexander Magnússon, Grindavík.
Áhorfendur: 1.147
Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr, ágætur.
banner
banner