Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   fim 16. apríl 2015 11:15
Fótbolti.net
Spá Fótbolta.net - 12. sæti: Leiknir
Fyrirliðar Leiknis, Óttar Bjarni Guðmundsson og Ólafur Hrannar Kristjánsson.
Fyrirliðar Leiknis, Óttar Bjarni Guðmundsson og Ólafur Hrannar Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hilmar Árni Halldórsson er lykilmaður í sóknarleik Leiknis.
Hilmar Árni Halldórsson er lykilmaður í sóknarleik Leiknis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Brynjar Hlöðversson.
Miðjumaðurinn Brynjar Hlöðversson.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Bakvörðurinn Eiríkur Ingi Magnússon.
Bakvörðurinn Eiríkur Ingi Magnússon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Páll Jónsson vængmaður.
Kristján Páll Jónsson vængmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að nýliðar Leiknis endi í tólfta og neðsta sæti Pepsi-deildarinnar í sumar. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Leiknir fékk 14 stig samtals.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11 ?
12. Leiknir 14 stig

Um liðið: Leiknir úr Breiðholti spilar í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir langa dvöl í 1. deildinni. Liðið vann 1. deildina í fyrra en það er byggt upp á heimamönnum með Leiknishjarta og er þjálfaraliðið einnig skipað heimamönnum. Langflestir leikmenn Leiknis eru ekki með reynslu úr Pepsi-deildinni og ljóst að liðinu bíður erfitt verkefni að halda sæti sínu. Það mun ekki takast ef spá Fótbolta.net gengur eftir.



Hvað segir Jörundur? Jörundur Áki Sveinsson er sérstakur álitsgjafi Fótbolta.net um liðin í Pepsi-deildinni 2015. Jörundur lét af störfum sem þjálfari hjá BÍ/Bolungarvík í fyrra en þar áður var hann aðstoðarþjálfari FH. Í dag þjálfar hann meistaraflokk kvenna hjá Fylki.

Styrkleikar: Fyrst og fremst liðsheild og samheldni. Þetta eru strákar sem flestir eru búnir að vera lengi saman, þjálfararnir eru að hefja sitt þriðja tímabil og það er líka mikill kostur. Þeir eru líka Leiknismenn í gegn sem skemmir ekki fyrir. Þetta er orðið nokkuð rútínerað hjá þeim og leikmenn vita hvers er ætlast til af þeim og þjálfararnir vita algjörlega hvar styrkur og veikleikar liðsins liggja. Það getur líka styrkleiki að vera nýliðar. Ég get lofað ykkur því að það verður gaman að mæta á völlinn í efra Breiðholti í sumar og Ghettoground mun verða erfiður útivöllur fyrir hin liðin að koma á. Það er líka klárlega styrkleiki að það er engin pressa á líðinu. Ólíkt kannski hinum nýliðunum, ÍA.

Veikleikar: Eru ekki með mikla breidd. Einnig eru ekki margir leikmenn sem hafa spilað á stóra sviðinu áður. Það er tvennt ólíkt að spila í 1. deild og taka svo skrefið upp í deild þeirra bestu. Meiðsli og leikbönn gætu því haft sitt að segja fyrir liðið. Munu örugglega koma til með að verjast mikið í sínum leikjum og spurning hvort að það komi niður á sóknarleik liðsins.

Lykilmenn: Eyjólfur Tómasson, Brynjar Hlöðversson og Hilmar Árni Halldórsson. Eyjólfur markmaður átti frábært tímabil í fyrra, bætti sig mikið, mun mæða mikið á honum í sumar. Brynjar er vanmetinn leikmaður, vinnur mikla skítavinnu og gríðarlega mikilvægur liðinu. Hilmar hefur verið orðaður við lið í Pepsi-deildinni undanfarin ár. Nú er komið að honum að sýna sig á stóra sviðinu, vonandi stenst hann þær væntingar sem til hans eru gerðar. Kolbeinn Kárason var fenginn til þess að skora mörk og eru miklar væntingar gerðar til hans. Stór og sterkur strákur sem þarf að sanna sig fyrir alvöru.

Gaman að fylgjast með: Það verður gaman að fylgjast með þjálfurum liðsins sem eru ungir og metnaðarfullir og með hjartað á réttum stað. Verður örugglega ekki auðvelt fyrir þá en ég hef fulla trú þeim. Það verður einnig gaman að fylgjast með stuðningsmönnum liðsins sem hafa beðið lengi eftir þessari stund, að liðið spili í efstu deild. Það á allt eftir að verða vitlaust í Gettó-inu!



Stuðningsmaðurinn segir - Magnús Sigurjón Guðmundsson
„Velgengni Leiknis hefur verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið í Efra Breiðholti. Fyrir rúmum áratug riðaði félagið á barmi gjaldþrots og það eina sem það átti var lítill, hrörlegur sumarbústaður sem var félagsheimili. Á þessum erfiðu tímum varð til samhentur hópur sem einsetti sér að bjarga félaginu, fjölskyldufélagið Leiknir varð til og sett í lága drifið og byrjað að klífa upp hjallann."

„Nú er uppskerutíðin af þessu magnaða starfi hafin. Allir Leiknismenn eru samhuga um að nálgast verkefnið með æðruleysi og njóta hverrar sekúndu. Við viljum sjá leikmenn okkar spila með hjartanu – fyrir klúbbinn sem við elskum. Einn leikur verður tekinn í einu og sama hvernig blæs í seglin þá fylkjum við okkur bak við okkar röggsömu skipstjórnendur – innan sem utan vallar."

Völlurinn: Leiknisvöllur er með stúku sem byrjað er að stækka og mun taka um 500 manns í sumar.

Komnir:
Arnar Freyr Ólafsson frá Fjölni
Atli Arnason frá Tindastóli
Elvar Páll Sigurðsson frá Breiðabliki
Halldór Kristinn Halldórsson frá Keflavík
Kolbeinn Kárason frá Val
Charley Fomen frá Frakklandi

Farnir:
Andri Fannar Stefánsson í Val (Var á láni)
Birkir Björnsson í Aftureldingu (Á láni)
Brandon Scott hættur
Matt Horth til Bandaríkjanna
Sævar Freyr Alexandersson í Aftureldingu
Vigfús Arnar Jósepsson hættur

Leikmenn Leiknis sumarið 2015:
1. Arnar Freyr Ólafsson
2. Skúli Bragason
3. Eiríkur Ingi Magnusson
4. Halldór Kristinn Halldórsson
5. Edvard B. Ottharsson
6. Ólafur Hrannar Kristjánsson
7. Atli Arnarson
8. Sindri Björnsson
9. Kolbeinn Kárason
10. Fannar Arnarsson
11. Brynjar Hlöðversson
15. Kristján Páll Jónsson
18. Elvar Páll Sigurðsson
20. Óttar Bjarni Guðmundsson
21. Hilmar Árni Halldórsson
22. Eyjólfur Tómasson
23. Gestur Ingi Harðarson
25. Daði Bærings Halldórsson
26. Hrannar Jónsson
27. Magnús Már Einarsson
30. Charley Fómen

Leikir Leiknis 2015:
3. maí Valur – Leiknir
11. maí Leiknir – ÍA
17. maí Stjarnan – Leiknir
20. maí ÍBV – Leiknir
26. maí Leiknir – Víkingur
31. maí FH – Leiknir
7. Júní Leiknir – Breiðablik
15. Júní Fjölnir – Leiknir
22. Júní Leiknir – Fylkir
28. Júní KR – Leiknir
13. Júlí Leiknir – Keflavík
20. Júlí Leiknir – Valur
26. Júlí ÍA – Leiknir
5. Ágúst Leiknir – Stjarnan
9. Ágúst Leiknir – ÍBV
17. Ágúst Víkingur R. – Leiknir
24. Ágúst Leiknir - FH
30. Ágúst Breiðablik – Leiknir
13. Sep Leiknir – Fjölnir
20. Sep Fylkir – Leiknir
26. Sep Leiknir – KR
3. Okt Keflavík – Leiknir

Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson og Jóhann Ingi Hafþórsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner