Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 03. júlí 2017 12:00
Elvar Geir Magnússon
Umræðan um sameiningu í Breiðholti orðin hávær
ÍR-inga fagna marki.
ÍR-inga fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Fagnað á Leiknisvelli.
Fagnað á Leiknisvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyjólfur Héðinsson í góðum félagsskap.
Eyjólfur Héðinsson í góðum félagsskap.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Umræða um mögulega sameiningu knattspyrnudeildar ÍR og Leiknis í Breiðholti er orðin ansi hávær eftir viðtal við Eyjólf Héðinsson í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn.

Þar lýsti Eyjólfur, sem er ÍR-ingur, yfir þeirri skoðun sinni að sameina ætti deildirnar undir nafninu „Breiðholt". Margir af kyndilberum beggja félaga hafa tekið þátt í umræðunni á Twitter.

„Var í burtu í gær og náði bara í dag að hlusta á Eyjó. Fullkomlega sammála!" skrifaði Magnús Þór Jónsson, skólastjóri í Breiðholti sem hefur þjálfað hjá ÍR í mörg ár.

„Fyrir mér þá kemur ekkert annað til greina. Sameina knd IR og Leikni," skrifaði Freyr Alexandersson, núverandi landsliðsþjálfari kvenna og fyrrum leikmaður og þjálfari Leiknis.

Fótbolti.net hefur heyrt í fjölmörgum aðila sem tengjast báðum félögum og eru þeir allir á sömu nótum hvað þetta varðar. Lítil fyrirstaða ætti því að vera fyrir því að fara í viðræður um þetta mál en ekki hafa enn heyrst raddir þeirra sem eru mótfallnir sameiningu.

Þórður Einarsson hefur starfað fyrir Leikni í fjöldamörg ár og tekið þátt í viðræðum varðandi hugsanlega sameiningu hjá knattspyrnudeildum Breiðholtsfélagana. Hann segir á Twitter að hann hafi aldrei fundið jafn mikinn byr með þessu.

„Hættum að berjast um Breiðholtið og förum að berjast fyrir Breiðholtið"
„Ég hef sterkar skoðanir á þessu," sagði Eyjólfur í umræddu viðtali. „Ég er fyrst og fremst stuðningsmaður ÍR og Breiðhyltingur. Ég er sammála Freysa, Dodda og fleiri Leiknismönnum að eina rétta skrefið sé að sameina ÍR og Leikni."

Eyjólfur spilaði með SönderjyskE og Midtjylland í danska boltanum en bæði lið eru sameiningarfélög.

„Þróunin í Danmörku síðustu 20-25 ár er sú að lið hafa verið að sameinast til að búa til eitt alvöru lið í stað þess að vera með tvö miðlungslið. Í tíu af síðustu tólf tímabilum í dönsku deildinni hafa sameiningarfélög hreppt titilinn. Við erum með FC Kaupmannahöfn, Nordsjælland og Midtjylland. Þetta er merkileg þróun sem hefur átt sér stað í Danmörku. Mér finnst eina rétta að menn taki höndum saman í stað þess að vera að rembast í sitthvoru horninu og búi til eitt almennilegt lið, geri þetta almennilega."

„Þeir sem ég hef rætt við, bæði Leiknismenn og ÍR-ingar, eru sammála því að nýtt félag ætti að heita Breiðholt. Það er sameiningartáknið. Breiðhyltingar eru stoltir af uppruna sínum. Þetta á að vera nýtt og ferskt."

Eyjólfur segir að engar vísbendingar séu um það að ÍR eða Leiknir séu að fara að skella sér aftur upp í efstu deild eins og málin standa í dag. Staða ÍR og Leiknis varðandi yngri flokka starfið kallar einnig á alvarlega umræðu um sameiningu að mati Eyjólfs.

„Það eru ekki sterkir flokkar að koma upp og sem dæmi er ÍR ekki með 2. flokk. 3. flokkur er í C-deild og 4. flokkur í B-deild. Hjá Leikni er 2., 3. og 4. flokkur í B-deild. Ef við skoðum þá leikmenn sem valdir eru í unglingalandslið þá heyrir til undantekninga að það séu ÍR-ingar eða Leiknismenn í því. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta muni breytast. Því á að ræða það af fullri alvöru að sameina þessi lið og gera þetta almennilega," segir Eyjólfur.

„Ég hef enn ekki fundið þann mann sem er á móti þessu. Ég umgengst Leiknismenn og þeir eru allir á þessu. Allir vinir mínir sem eru ÍR-ingar eru á þessu. Þegar maður fer á ÍR-völlinn þá eru flestir á þessu. Það hljóta einhverjir að vera á móti þessu, ég hef ekki hitt þá enn. Við erum ekki bundnir af ákvörðunum sem voru teknar fyrir 50 árum þegar knattspyrnudeildir ÍR og Leiknis voru stofnaðar. Við getum skrifað söguna, við erum hluti af þessu félagi sem stuðningsmenn, iðkendur og velunnarar. Við eigum að geta breytt þessu."

Eyjólfur vitnaði í vin sinn, Sigmann Þórðarson ÍR-ing.

„Það er alltaf talað um baráttuna um Breiðholtið þegar ÍR og Leiknir mætast. 'Hættum að berjast um Breiðholtið og förum að berjast fyrir Breiðholtið' sagði Sigmann og það ættu að vera einkunnarorð í þessari baráttu fyrir alvöru knattspyrnulið í Breiðholti," sagði Eyjólfur.

Viðtalið má heyra með því að smella hér en viðtalið við Eyjó kemur eftir rúmar 12 mínútur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner