Stefán Birgir Jóhannesson (Njarðvík)
Stefán Birgir Jóhannesson, leikmaður Njarðvíkur er leikmaður 1. umferðar í Inkasso-deildinni.
Stefán Birgir skoraði eitt mark og lagði upp annað í 3-2 útisigri á Þrótti.
Stefán Birgir skoraði eitt mark og lagði upp annað í 3-2 útisigri á Þrótti.
„Þetta var skemmtilegur leikur að taka þátt í. Veðrið var upp á 10 og umgjörðin hjá Þrótturunum alveg geggjuð. Það er alltaf gaman að koma í Laugardalinn. Mér fannst við byrja leikinn vel og komumst í 1-0 með marki frá. Þeir jöfnuðu svo leikinn með góðu marki og þetta var bara nokkuð jafnt það sem eftir lifði seinni hálfleiks. Þeir fá svo víti sem að ég sá ekki nógu vel og skoruðu úr því. Það var smá kinnhestur og menn spýttu í eftir það og stigu hærra upp á völlinn og sóttum þrjú stig í pokann góða," sagði Stefán Birgir aðspurður út í leikinn.
Hann segir að sumarið leggist vel í sig og Njarðvíkurliðið komi vel undan vetri.
„Við erum með ákveðin gildi sem við stöndum fyrir og ef við höldum í þau áfram þá eru allir vegir færir. Ég held að ég þurfi ekkert að uppljóstra neinum leyndarmálum til þess að fólk átti sig á því hvert markmiðið hjá okkur er í sumar. Það er auðvitað fyrst og fremst að gera nógu vel til að fá þáttökurétt í Inkasso að ári. Við erum svo með rúsínur í þessu þegar að það verður komið í höfn," sagði Stefán sem var ánægður með sinn leik og þá sérstaklega með markið sem hann skoraði.
„Þetta gekk bara fínt. Það var sérstaklega gaman að ná að skora beint úr horni. Snorri aðstoðarþjálfari bað mig um að skjóta úr næsta horni og reyna að skora, ætli ég verði ekki að gefa honum eitthvað credit blessuðum manninum. Heilt yfir bara fínt, það var ágætis taktur í liðinu hjá okkur og við bíðum spenntir eftir að fá Þórsarana í heimsókn til okkar næstu helgi."
Hann segir það vera virkilega sterkt að byrja á góðum útisigri.
„Óskabyrjun, eigum við ekki að segja það. Þróttur er með frábæra leikmenn í sínum röðum og verða öflugir í sumar. Ég held að það verði ekki mörg lið sem að vinna þá í Laugardalnum. Nú er bara fyrir okkar að recovera og svo er það bara upp með sokkana á laugardaginn," sagði leikmaður 1. umferðar að lokum en Njarðvík mætir Þór á heimavelli næstkomandi laugardag.
Athugasemdir