
Tvíburabræðurnir Andri og Brynjar Jónassynir spila með ÍH. Brynjar var markahæsti leikmaður 3. deildar í fyrra.
Keppni í 3. deild karla hefst á morgun með leik Hvíta riddarans og KV á Malbikstöðinni að Varmá. Við fengum alla þjálfara í deildinni til að skila inn spá stuttu fyrir mót. Þeir voru beðnir að raða liðunum niður 1-11 í spá og slepptu sínu liði. Við byrjum á að fara yfir liðin sem enduðu í neðri hlutanum í þessari spá þjálfara deildarinnar.
7. Hvíti riddarinn (53 stig)
Lokastaða í fyrra: 6. sæti í 3. deild
Hvíti riddarinn úr Mosfellsbæ átti fínasta tímabil í fyrra og þeir enduðu það sérstaklega vel. Ásgeir Frank Ásgeirsson stýrði liðinu í sjötta sæti sem var betra en þjálfarar deildarinnar bjuggust við fyrir mót. Hvíta var spáð áttunda sæti fyrir mótið en þeir stökkva upp um eitt sæti núna þrátt fyrir að hafa misst Alexander Aron Tómasson, sinn markahæsta mann, í Hauka. Alexander Aron var frábær síðasta sumar og gerði 15 mörk. Núna er kominn nýr þjálfari og aðrir leikmenn þurfa að stíga upp eftir brotthvarf langamarkahæsta mannsins svo Mosostrákarnir verði á svipuðum stað og spáin segir til um.
Lykilmenn: Jonatan Aaron Belányi og Ástþór Ingi Runólfsson
Gaman að fylgjast með: Aron Daði Ásbjörnsson
Þjálfarinn segir - Ásbjörn Jónsson
„Þessi spá kemur mér ekki á óvart. Liðið hefur undanfarin 2 ár verið í botnbaráttu í deildinni og náð að bjarga sér með góðu áhlaupi seinni hluta sumars í bæði skiptin. Það hafa margir fastamenn yfirgefið liðið frá því síðastliðið sumar og við hafa tekið ungir og óreyndir heimastrákar sem voru að spila í 2. flokki Aftureldingar og Álafossi í fyrra. Spáin virðist því nokkuð rökrétt. Ég tel liðið hins vegar nokkuð gott og strákarnir hafa æft vel í vetur þannig að ég geri mér vonir um að verða í efri hluta deildarinnar og gera þannig betur en undanfarin 2 ár. Ég þekki hins vegar ekki nógu vel styrkleika allra hinna liðanna í deildinni til að segja til um hvort að það sé raunhæft."
8. KF (45 stig)
Lokastaða í fyrra: 11. sæti í 2. deild
Síðasta sumar var ekki gott fyrir Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og var fall niðurstaðan úr 2. deild. Þetta hafði kannski legið í loftinu um tíma en liðið hafði verið í fallbaráttu í nokkur ár. Svo gekk einhvern veginn bara lítið upp í fyrra. Liðið er nokkuð breytt frá því í fyrra og það er nýr þjálfari í brúnni, en aðrir þjálfarar í 2. deild virðast ekki hafa mikla trú á því að KF nái að rífa sig upp og komast beint aftur upp í 2. deild. Því er spáð að liðið verði í neðri hluta 3. deildar í sumar og eftir undirbúningstímabilið er það kannski ekki skrítið; KF tapaði öllum leikjum sínum í Lengjubikarnum og svo gegn Tindastóli í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins. Ekki frábær fyrirheit fyrir félagið frá Fjallabyggð.
Lykilmenn: Grétar Áki Bergsson og Jordan Damachoua
Gaman að fylgjast með: Agnar Óli Grétarsson
Þjálfarinn segir - Daniel Kristiansen
„Ég held að við munum koma hinum liðunum á óvart. Undirbúningstímabilin okkar fyrir norðan eru alltaf erfið, en leikmenn hafa stigið upp og tekið ábyrgð. Við höfum fengið inn nokkra góða leikmenn sem við teljum að muni hjálpa okkur. Við erum með góðan hóp."
„Markmið okkar fyrir tímabilið er að vera í pakkanum sem er að berjast um að komast upp út tímabilið, hvort sem það þýðir að lenda í öðru eða fimmta sæti. Stóra óvissan hjá okkur er heimavöllurinn okkar á Ólafsfirði sem er yfirleitt erfiður staður til að spila á fyrir önnur lið. Völlur var slæmur í fyrra og Fjallabyggð hefur ekkert gert til að gera hann kláran fyrir tímabilið. Það er svekkjandi fyrir okkur en líka leiðinlegt fyrir þróun ungra leikmannanna í bænum."
9. Sindri (41 stig)
Lokastaða í fyrra: 10. sæti í 3. deild
Sindri var kannski í svipaðri stöðu í fyrra og KF er núna. Þeir féllu úr 2. deild og var spáð níunda sæti í 3. deildinni eftir fallið. Það var svona smá lægð yfir fótboltanum á Hornafirði eftir fallið og þeir þurftu að líta inn á við. Niðurstaðan var tíunda sæti síðasta sumar og það erfiðlega. Ekki frábært sumar fyrir Hornfirðinga og þeir voru ekki svo langt frá því að falla. Þeir voru aðeins einu stigi frá því í lokin og voru tveir sigrar í síðustu fimm leikjunum afar mikilvægir. Fimmtán mörk frá Abdul Bangura voru einnig mjög mikilvæg en hann var næst markahæstur í deildinni og það er mikilvægt fyrir Sindra að halda honum. Mate Paponja kemur inn í þjálfarateymið frá því í fyrra og verður Jón Karlsson, þjálfari liðsins í fyrra, einnig í kringum liðið.
Lykilmenn: Abdul Bangura og Björgvin Ingi Ólason
Gaman að fylgjast með: Emir Mesetovic
Þjálfarinn segir - Jón Karlsson
„Okkur finnst þessi spá svo sem ekkert óeðlileg, ef við horfum til þess hvernig síðasta tímabil endaði. Hins vegar var neðri helmingur deildarinnar mjög jafn þá, og lýsir sér best í því að sigur í síðasta leik hefði lyft okkur upp í 6. sæti deildarinnar en með tapi enduðum við í 10. sæti. Markmiðið var tvenns konar; annars vegqr að tryggja sæti Sindra í deildinni, og hins vegar að gefa ungum leikmönnum frá Höfn tækifæri í meistaraflokksbolta. Þau bæði náðust, það voru 10 leikmenn á 2. fl. aldri sem spiluðu sinn fyrsta meistaraflokksleik, og margir þeirra gegndu stóru hlutverki um sumarið. Við vorum virkilega ánægðir með það."
„Markmiðið í sumar er auðvitað að gera betur en í fyrra. Við höfum bætt við okkur tveimur reynslumiklum leikmönnum, sem við trúum að munu styrkja okkur mikið í baráttunni sem framundan er. Hópurinn er búinn að vera tvískiptur í vetur og því hefur undirbúningstímabilið tekið mið af því. Núna erum við loksins búnir að fá allan hópinn saman. Sumarið leggst vel í okkur og við erum spenntir fyrir fyrsta leik."
10. ÍH (35 stig)
Lokastaða í fyrra: 7. sæti í 3. deild
Pakkinn í neðri hluta 3. deildarinnar í fyrar var gríðarlega þéttur og var ÍH hluti af þeim pakka. Þeir enduðu í sjöunda sæti, því sæti sem þeim var spáð fyrir mót, en þeir voru bara einu stigi á undan Sindra - liðinu í tíunda sæti - þegar 22 umferðir voru búnar. Markahæsti leikmaður deildarinnar í fyrra, Brynjar Jónasson, er í þeirra liði en hann skoraði 16 mörk. ÍH er á leið inn í sitt fimmta tímabil í röð í 3. deild en þeir hafa verið í fallbaráttu öll tímabilin til þessa. ÍH samanstendur mest af leikmönnum sem eiga það sameiginlegt að hafa verið í FH á einhverjum tímapunkti og ef vel gengur, þá getur myndast þarna skemmtileg stemning. Liðið náði í eitt stig í riðli sínum í Lengjubikarnum og kom það stig gegn Haukum, sem hefur eflaust verið nokkuð skemmtilegt fyrir leikmenn liðsins. Brynjar Gestsson hefur stýrt ÍH í nokkrum leikjum í vetur og verður örugglega eitthvað viðloðandi liðið í sumar.
Lykilmenn: Brynjar Jónasson og Andri Jónasson
Gaman að fylgjast með: Sigurður Gísli Bond Snorrason
Þjálfarinn segir - Fannar Freyr Guðmundsson
„Þessi spá kemur okkur ekki mikið á óvart ef við skoðum lengjubikarinn þar sem við vorum í brasi og auðvitað líka sú staðreynd að við höfum bjargað okkur frá falli á síðustu stundu nokkur tímabil í röð."
„En markmið liðsins eru skýr og það er að vera í toppbaráttu deildarinnar, við erum með skemmtilega blöndu af leikmönnum bæði um og yfir þrítugt og svo nokkra unga og efnilega stráka úr 2.flokki FH. Ef við ætlum okkur í toppbaráttu þá þurfum við að gera Skessuna að alvöru vígi og það er það sem við ætlum að gera."
11. Ýmir (32 stig)
Lokastaða í fyrra: 2. sæti í 4. deild
Ýmismenn eru mættir aftur í 3. deild eftir að hafa endað í öðru sæti í 4. deild síðasta sumar. Þetta var hörkubarátta en Ýmir hafði að lokum betur gegn Árborg og fór upp með Tindastóli. Ýmir er venslafélag HK og þarna eru ungir leikmenn að taka skrefin í meistaraflokki í bland við eldri og reynslumeiri leikmenn sem hafa margir hverjir farið í gegnum HK-skólann. Margir úr liðinu féllu með Ými fyrir tveimur árum úr 3. deild og ætla sér að sanna að þeir geti gert betur í sumar þegar liðið mætir aftur í deildina. Þjálfarar í deildinni hafa ekki trú á að Ýmir haldi sér uppi en það er undir leikmönnum og þjálfurum liðsins að afsanna þessa spá.
Lykilmenn: Hörður Máni Ásmundsson og Gabríel Delgado Costa
Gaman að fylgjast með: Reynir Leó Egilsson
Þjálfarinn segir - Þórarinn Jónas Ásgeirsson
„Spáin kemur svo sem lítið á óvart þegar allt er skoðað. Við erum nýliðar í deildinni og Lengjubikarinn var ekkert merkilegur hjá okkur úrslitalega séð ásamt því að detta svo út úr bikarnum á móti Höfnum í fyrstu umferð og það er það sem aðrir rýna í. Það er svo bara okkar að afsanna þessa blessuðu spámenn."
„Okkar helsta markmið í sumar verður að halda okkur í deildinni og ná að stabílisera félagið í 3. deild ásamt því að þróa yngri leikmenn sem koma til með að nýtast HK í framtíðinni. Samstarfið við HK hefur aukist í ár og vonum við að við getum haldið áfram að sýna fólki innan HK að það sé hægt að nýta venslafélag eins og Ými í að þróa leikmenn innan félagsins í stað þess að senda þá eitthvað annað."
„Síðast þegar liðið var í þessari deild fyrir tveimur árum síðan þá féll það og eru menn í hópnum sem spiluðu með liðinu eru hungraðir í að sanna að þeir eigi heima í þessari deild ásamt öðrum. Hópurinn er þéttari og breiðari heldur en í fyrra og eru menn búnir að æfa mjög vel í vetur og það er okkar sannfæring að við getum náð settum markmiðum í sumar."
12. KFK (19 stig)
Lokastaða í fyrra: 9. sæti í 3. deild
Að lokum er það liðinu sem er spáð botnsætinu, KFK. Liðinu var einnig spáð falli í fyrra en náði þá að halda sér uppi með tveimur stigum meira en Elliði. KFK er tiltölulega nýtt félag og þeir mæta í raun með nýtt lið til leiks í sumar. Ef maður skoðar hjá félagaskiptasíðuna hjá KSÍ þá eru 22 leikmenn komnir frá síðasta tímabili og 19 leikmenn farnir. Þetta er nánast bara nýtt lið miðað við síðasta sumar. KFK fór seint af stað í undirbúningi og það er erfitt að sjá hvernig mun ganga að smíða saman liðsheild á svona stuttum tíma. Fjölmiðlamaðurinn Ríkharð Óskar Guðnason, Rikki G, fékk félagaskipti til KFK stuttu fyrir gluggalok og kannski getur hann hjálpað með það, að búa til liðsheild.
Lykilmenn: Hubert Kotus og Keston George
Gaman að fylgjast með: Rikki G
Þjálfarinn segir - Búi Vilhjálmur Guðmundsson
„Hef skilning á því að okkur sé spáð 12. sætinu. Margir leikmenn látnir fara frá árinu í fyrra sem stóðust ekki væntingar og byrjum að æfa í mars. En við KFK menn erum bjartsýnir í ár. Það hefur tekist vel til á leikmannamarkaðnum og við munum vera mun sterkari en í fyrra. Ætlum að skemmta fólkinu í landinu og skemmta okkur."
„Rikki kemur sem taktískur ráðgjafi innan sem utan vallar. Rikki er með yfirgripsmikla þekkingu á knattspyrnu og mikill stemningsmaður. Klefinn verður sá besti í deildinni og síðan er gæinn frábær í fótbolta. Elska hann."
Athugasemdir