Ruben Amorim, stjóri Manchester United, segir að Lisandro Martínez gæti verið lengi frá eftir að hann meiddist í 2-0 tapinu gegn Crystal Palace í dag.
Tvö mörk Jean-Philippe Mateta í síðari hálfleik var nóg fyrir Palace til að landa sigri á Old Trafford.
Amorim var nokkuð sáttur með frammistöðuna en segir að liðið hefði vel getað komið í veg fyrir mörkin.
„Úrslitin eru mjög slæm. Frammistaðan var aðeins betri en í síðustu leikjum. Við náðum að stjórna umbreytingum Crystal Palace nokkuð vel, en fengum á okkur tvö mörk sem við eigum að geta forðast og síðan voru meiðsli Lisandro Martínez mjög erfið fyrir liðið,“ sagði Amorim.
Martínez meiddist á hné undir lok leiks og þurfti hann að fara af velli á börum. Amorim telur meiðslin alvarleg sem þýðir að Martínez gæti verið lengi frá.
„Við munum komast betur að því á næstu dögum, en ég held að þetta sé alvarleg staða. Hann er ekki bara magnaður leikmaður heldur sterkur karakter í búningsklefanum. Hann fann fyrir einhverju og þegar þú ert leikmaður þá veistu hvenær eitthvað alvarlegt amar að. Við erum hér til að hálpa honum á þessu erfiða augnabliki eins og hann hefur hjálpað okkur.“
„Það er mjög eðlilegt fyrir stuðningsmennina að vera neikvæðir. Þetta er erfitt tímabil fyrir þá en fótboltinn getur breyst á ákveðnum augnablikum. Ég mun undirbúa næsta leik og horfa fram veginn. Hlutirnir verða betri,“ sagði Amorim.
Athugasemdir