Arsenal líklegt til að fá Eze - Arsenal hefur enn ekki náð samkomulagi um Gyökeres - Napoli vill Nunez
banner
   þri 02. maí 2017 10:25
Magnús Már Einarsson
Böddi löpp: Sé mikið eftir þessu
Böddi í leiknum á sunnudaginn.
Böddi í leiknum á sunnudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Böðvar Böðvarsson, leikmaður FH, hefur verið mikið í umræðunni eftir leik liðsins gegn ÍA í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar. Margir vildu sjá Böðvar fá rautt spjald í fyrri hálfleik í leiknum. Hann rak löppina í höfuð Þórðar Þorsteins Þórðarsonar þegar hann lá á vellinum á 40. mínútu og fékk svo að líta gula spjaldið fyrir brot stuttu seinna.

„Ég er svekktur með sjálfan mig að koma mér og liðinu í þessa aðstöðu með því að gera þetta. Þetta var alls ekki gáfað og ég er svekktur yfir þessu. Ef ég ætla að taka næsta skrefið á ferlinum þá er svona vitleysa ekki að fara að hjálpa mér," sagði Böðvar við Fótbolta.net í dag.

„Ég þekki Þórð vel og mér fannst hann gera full mikið úr þessari tæklingu. Ég steig við hliðina á honum og sagði 'Doddi ertu að grínast?' Síðan rak ég löppina því miður í hann og ég sé mikið eftir því."

„Ég verð að halda haus. Ég býst við að dómarar deildarinnar fylgist betur með mér núna og ég þarf að passa mig vel."


Hló að Twitter færslu Einars Orra
Mikil umræða var á samskiptamiðlum um Bödda eftir leikinn á sunnudaginn.

„Ég kom inn í klefa eftir leik og var búinn að steingleyma öllu sem gerðist í fyrri hálfleik. Kærastan mín var í Stokkhólmi og hún sendi mér screenshot af öllu sem var í gangi á netinu og spurði mig hvað væri eiginlega í gangi," sagði Böðvar.

„Ég fékk smá í magann og fór að skoða þetta. Ég sá tvít frá Einari Orra og þá ákvað ég að hlæja. Þetta er eini maðurinn sem hefur gefið mér líflátshótun, kyrkt mig og keyrt mig upp við vegg við búningsklefana, allt á sömu tuttugu mínútunum. Ég held að hann ætti aðeins að slaka á."

Einar Orri er leikmaður Keflavíkur en hann og Böðvar elduðu grátt silfur saman í leik árið 2014. Einar Orri fékk rauða spjaldið þar en á sunnudaginn sagði hann á Twitter: „ Böddi er dirty player. Gæti auðveldlega verið kominn með rautt."

Er Böðvar óánægður yfir Twitter færslu Einars? „Nei, nei það er tjáningarfrelsi á þessu landi og ég er ekki að pirra mig yfir því. Mér fannst þetta bara fyndið. Ekki er ég að tvíta að Fellaini sé fáviti," sagði Böðvar.

Sjá einnig:
Óskar Hrafn: Böðvar hagar sér eins og fífl
Gulli Jóns: Með ólíkindum að fjórir starfsmenn KSÍ og dómarar skyldu ekki taka eftir þessu
Heimir Guðjóns: Ef þetta á að vera gult yrði enginn eftir á vellinum
Athugasemdir
banner
banner