Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 02. nóvember 2019 19:07
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Fólk hlær að VAR
Klopp hefur miklar mætur á Mane enda hefur framherjinn verið feykilega öflugur frá komu sinni til Liverpool.
Klopp hefur miklar mætur á Mane enda hefur framherjinn verið feykilega öflugur frá komu sinni til Liverpool.
Mynd: Getty Images
Jürgen Klopp var kátur að leikslokum eftir 1-2 sigur Liverpool gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Liverpool lenti undir í leiknum og náði ekki að jafna fyrr en Andy Robertson skoraði á 87. mínútu. Sadio Mane gerði svo sigurmarkið í uppbótartíma með skalla eftir hornspyrnu.

„Þetta var ótrúleg tilfinning, ein sú besta í fótbolta. Við höfðum prófað þessa hornspyrnu mikið á æfingasvæðinu og það virkaði fullkomlega í dag," sagði Klopp að leikslokum.

„Sadio var frábær, hann gerði gæfumuninn. Hann átti líka fyrirgjöfina í fyrra markinu. Ég er sérstaklega stoltur af honum fyrir að hafa haldið haus eftir gula spjaldið sem hann fékk. Hann er klárlega ekki að dýfa sér því það er snerting en þetta er ákvörðun sem við verðum að samþykkja.

„Áhorfendur reyndu að gera hann óöruggan en það virkaði augljóslega ekki því við erum að tala um Sadio. Hann var frábær varnarlega og stóð uppi sem maður leiksins. Mjög gott hjá honum."


Roberto Firmino kom knettinum einnig í netið í leiknum en markið ekki dæmt gilt vegna ótrúlega tæprar rangstöðu. Endursýningar sýndu að handarkrikinn hans Firmino var fyrir innan varnarlínuna. Þá vildi Liverpool einnig fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Matthew Targett innan vítateigs.

„Við unnum leikinn og þess vegna er þetta ekki alvarlegt fyrir mig núna, en þetta er raunverulegt vandamál. Þetta eru mikilvægar stundir sem geta ráðið mikilvægum úrslitum. Þjálfarar geta misst starfið sitt útaf dómaraákvörðun. Þetta er grafalvarlegt mál.

„Hvað með þegar boltinn fór í höndina á Targett? Það talar enginn um það. Það er skot sem fer í handlegginn á honum og ég hélt að það ætti að vera víti. Stundum falla þessar ákvarðanir með manni og stundum ekki, þannig er það bara. Það sem við verðum að gera er að passa að kerfið sem við notum sé jákvætt og hjálpi leiknum.

„Eins og staðan er núna þá hlær fólk af mörgum ákvörðunum sem eru teknar með VAR og þetta hefur gert leikinn talsvert ruglingslegri en áður."

Athugasemdir
banner
banner