Haraldur Árni Hróðmarsson, þjálfari Grindavíkur, var gestur í hlaðvarpsþættinum Tveggja Turna Tal sem er í umsjón Jóns Páls Pálmasonar.
Jón Páll fór yfir feril Halla til þessa og spurði hann út í tímann til þessa hjá Grindavík og framhaldið.
Jón Páll fór yfir feril Halla til þessa og spurði hann út í tímann til þessa hjá Grindavík og framhaldið.
Eins og allir vita þá þurfti Grindavík að spila heimaleiki sína utan Grindavíkur, spiluðu í Safamýrinni í sumar, þar sem ekki var hægt að spila heima í Grindavík vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Grindavík verður ekki áfram í Safamýri á næsta tímabili.
Færri útlendingar og fleiri ungir leikmenn
„Við ætlum aðeins að breyta til, vorum með svolítið mikið af útlendingum á síðasta tímabili og ætlum að reyna grisja það aðeins. Allt góðir leikmenn og allt góðir gaurar, það er ekki vandamálið, en dýnamíkin er aðeins öðruvísi þegar þú ert með mikið af útlendingum," sagði Halli.
„Það sem atvinnumenn geta gert en íslenskir leikmenn geta ekki gert, er að þeir geta æft á 75% hraða og kveikt á sér á leikdegi og verið geggjaðir. Þetta er ekki í kúltúrnum okkar, við kunnum þetta ekki. Það sem við þurfum er sterkari íslenskur kjarni, erum að skoða mjög mikið af ungum leikmönnum, viljum yngja upp liðið. Við erum með stráka fædda 2005-2008 sem eru mjög efnilegir. Við ætlum að reyna spila eins mikið á ungum leikmönnum og við getum og komumst upp með, á sama tíma ætlum við að vera með gott lið. Við ætlum að þrykkja inn einhverjum sprækum gaurum sem vantar tækifæri og eru til í að æfa vel og hjálpa okkur að byggja upp Grindavíkurliðið."
Verða í Kaplakrika í vetur
„Við erum með kláran samning við FH um æfingaaðstöðu, við verðum í Kaplakrika í vetur. Það á eftir að afgreiða það af ríkinu, innanríkisráðuneytinu. Ég reikna með því og vonast eftir því að þetta verði klárað einn, tveir og bingó. Það er búið að ná samkomulagi milli félaganna og milli Grindavíkur og ráðuneytisins. Við vonum að þetta klárist á næstu dögum frekar en vikum."
Vilja spila heima í Grindavík - Varavöllurinn í Kaplakrika?
„Svo er markmiðið að spila í Grindavík næsta sumar. Við höfum fulla trú á því að við getum það, hvort við náum öllum heimaleikjum veit ég ekki, en vona það. Það er hugur í okkur að drífa okkur heim."
„Það er til umræðu að varavöllurinn verði í Kaplakrika og FH-ingar hafa ekki tekið illa í það. Auðvitað fer þetta allt eftir tíðinni, Golfstraumurinn og félagar þurfa að vinna með okkur. FH er með bestu æfingaaðstöðu landsins, við yrðum hæstánægðir með að vera þar og það er mikil innspýting fyrir okkur. Án þess að vera vanþakklátur þá er Safamýrin með lélegt gervigras og illa hirtan grasvöll. Það er því klárt skref upp á við að fara í Kaplakrika."
Samstarf milli félaganna varðandi leikmenn
„Í okkar samtölum við FH höfum við áhuga á því, og FH líka, að nota leikmenn frá FH, hjálpa FH að leyfa ungum leikmönnum spila, þeirra markmið samræmist okkar markmiðum. Þeir geta hjálpað okkur og við hjálpað þeim. FH er með mikið af efnilegum leikmönnum sem þurfa smá hár á bringuna. Það hefur verið hefð fyrir því í Grindavík að menn eflast og styrkjast með því að spila fyrir Grindavík."
„Við erum með okkar ungu stráka og þeir eru alltaf í forgangi. Ég ætla ekki að taka inn 16 ára FH-ing sem fer fram fyrir Grindvíking í röðinni. Það er meira spurning um leikmenn sem eru í kringum tvítugt og hafa verið að æfa með meistaraflokki FH en vantar smá reynslu. Það er að einhverju leyti hvati fyrir FH-inga að taka okkur inn, við getum hjálpað ungum Hafnfirðingum að verða toppleikmenn," sagði Halli.
Athugasemdir