Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 06. desember 2019 11:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Alfons Sampsted: Líður eins og töluvert heilsteyptari leikmanni
Alfons í U21 árs landsleik á Víkingsvelli í haust.
Alfons í U21 árs landsleik á Víkingsvelli í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr U21 árs landsleik 2018.
Úr U21 árs landsleik 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Alfons í leik með Breiðablik í sumar.
Alfons í leik með Breiðablik í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons fagnar með Andra Rafni Yeoman árið 2016.
Alfons fagnar með Andra Rafni Yeoman árið 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons Sampsted er 21 árs hægri bakvörður. Hann var lánaður til Breiðabliks frá sænska félaginu Norrköping í lok júlí og lék með Breiðablik seinni hluta leiktíðarinnar í ár.

Alfons er uppalinn hjá Breiðablik en fór árið 2017 til Norrköping. Hann hefur leikið 26 leiki fyrir U21 árs landslið Íslands og skorað eitt mark.

Hann hefur leikið alls 25 leiki í efstu deild á Íslandi og tvo leiki í sænsku Allsvenskan. Fótbolti.net hafði samband við Alfons í vikunni og spurði bakvörðinn út í ferilinn til þessa.

Fyrsta spurning til Alfons tengdist áhuga Freiburg á honum. Í maí árið 2016 vildi þýska liðið kaupa bakvörðinn en ekkert varð úr vistaskiptunum. Áður en Alfons gekk í raðir Norrköping árið 2017 voru fleiri lið búin að skoða hann?

„Ég fór á sínum tíma á reynslu til Rosenborg, Nordsjælland, Freiburg og Club Brugge," sagði Alfons við Fótbolta.net

Af hverju gekk Freiburg ekki upp?

„Málið með Freiburg var að félagið og Breiðablik náðu ekki saman, svona eins og gengur og gerist."

„Það var ekkert sem fór í taugarnar á mer. Að mínu mati var meistaraflokkur Breiðabliks betri fyrir mig á þeim tíma."


Var í plönum Norrköping til að byrja með
Eins og áður hefur komið fram gekk Alfons í raðir Norrköping árið 2017. Hvernig lýsir Alfons fyrstu mánuðunum hjá félaginu?

„Ég fer út í ársbyrjun 2017, og var inn í plönum félagsins til að byrja með."

„Ég var hugsaður sem hægri bakvörður. Síðan breytir liðið um leikkerfi og ég lendi á milli staða á vellinum, liðið fer í þriggja manna miðvarðakerfi."

„Ég var ekki beint hafsent og passaði ekki heldur sem vængbakvörður þar sem þeir vildu nota miðjumenn í kantbakvörðunum."


Landskrona var lið í erfiðri stöðu
Í ágúst árið 2018 var Alfons lánaður til Landskrona sem lék í næstefstu deild. Hvernig var tíminn í Superettunni (næstefstu deild)?

„Ég fór á lán til Landskrona. Félagið var í mjög erfiðri stöðu á þeim tíma."

„Þar voru mikil peningavandræði og stjórnin ekki að tengja við þjálfarann. Þjálfarinn er að lokum rekinn og annar maður kemur inn sem nær ekki til leikmannnanna."

„Fyrir mitt leyti lærði ég helling á tímanum hjá Landskrona. Ég fekk stórt hlutverk og spilaði 90 mínútur í öllum leikjum."

„Gæðin á liðum þarna i næstefstu deild eru mjög mismunandi, leikmennirnir eru góðir og spila flottan fótbolta."

„Það má segja að bestu liðin séu mjög góð en það er ekki jafnmikið undir og í leikjum eins og t.d. í Pepsi Max-deildinni á Íslandi."


Valdi sjálfur að fara á lán til Sylvia
Alfons fór fyrri hluta ársins í ár á lán til Sylvia. Sylvia er einhvers konar vensla-varalið Norrköping, ungir leikmenn fara oft á láni til félagsins. Liðið leikur í sænsku C-deildinni, norðurhluta. Var það hans hugmynd að fara í C-deildina?

„Ég fer til Sylvia fyrri hluta sumars í ár og sú ákvörðun var tekin af mér sjálfum. Ég vildi halda áfram að spila alla leiki og spila stórt hlutverk."

„Kosturinn við IF Sylvia var að þar æfði ég með Norrköping á morgnanna og Sylvia seinni partinn og spilaði siðan 90 minútur allar helgar."

„Æfingalega séð var þetta erfitt en frábært hvernig þetta fór saman að geta æft með báðum liðum og spilað með Sylvia."


Þurfti að spila á stað með meiri gæðum
Alfons gekk í raðir Breiðabliks á láni frá Norrköping undir lok sumargluggans í sumar. Hvað kom til að Alfons kom heim á þeim tímapunkti?

„Ég kem á láni til Breiðabliks í sumar, ástæðan fyrir því var að Norrköping var búið að vera á góðu skriði"

„Liðið var að fá á sig fá mörk, það var ekki tilefni til að breyta varnarlínunni og það leit ekki út fyrir að það myndi gerast bráðum."

„Þess vegna áleit ég að ég yrði að spila á stað þar sem gæðin væru meiri, þar sem ég gæti orðið afhjúpaður með mína veikleika."

„Þegar ég leit heim til Íslands þá gat ég bara hugsað mér einn klúbb, Breiðablik."


Blikar eiga helling inni
Alfons var spurður út í viðbrigðin að koma heim í Pepsi Max-deildina eftir þriggja ára fjarveru.

„Mér fannst ég þurfa nokkra leiki til að koma mér inn í leikkefið og rútínuna að spila leiki. Ég var búinn að vera í sumarfríi í Svíþjóð þar sem það var hlé yfir hásumarið."

„Ef ég ber þessa leiki saman við árið 2016 þá fannst mér ég hafa meiri stjórn á hlutunum í þetta skiptið."

„Blikarnir voru búnir að spila erfiða leiki áður en ég kem inn. Fljótlega eftir það finnum við taktinn og mér fannst við standa okkur vel sem lið þó svo við hefðum getað gert betur."

„Ég tel Blikana eiga helling inni og verður gaman að sjá hvernig næsta tímabil fer."


Alfons var að lokum spurður í hverju hann hefði bætt sig sem leikmaður á síðustu þremur árum.

„Ég á mjög erfitt með að segja hvar ég bætti mig nákvæmlega."

„Mér líður eins og töluvert heilsteyptari leikmanni núna miðað við það sem ég var áður,"
sagði Alfons að lokum.
Athugasemdir
banner
banner